Erlent

Anders­son, Erdogan og Niini­stö funda á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Magdalena Andersson er forsætisráðherra Svíþjóðar.
Magdalena Andersson er forsætisráðherra Svíþjóðar. EPA

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti munu hittast á fundi á morgun til að ræða umsóknir Svíþjóðar og Finnlands að NATO.

Tyrkneskir fjölmiðlar greina frá þessu í morgun, en leiðtogafundur NATO hefst í spænsku höfuðborginni Madríd á morgun. Segir að ólíklegt sé þó að sættir náist á fundi þeirra Andersson, Niinistö og Erdogan hvað varðar afstöðu tyrkneskra stjórnvalda til aðildar Svía og Finna.

„Þátttaka á þessum fundi þýðir ekki að við hverfum frá fyrri afstöðu okkar,“ segir Ibrahim Kali, talsmaður Erdogans í samtali við Daily Sabah.

Tyrknesk stjórnvöld hafa farið fram á að sænsk og finnsk stjórnvöld lýsi yfir skýrri andstöðu við kúrdísku uppreisnarsveitina PKK ásamt sýrlenska-kúrdíska stjórnmálaflokknum YPG, en Tyrkir skilgreina samtökin sem hryðjuverkasamtök.

„Við höfum sagt að boltinn sé hjá þeim [Svíum og Finnum] núna,“ segir Kalin.

SVT segir frá því að Andersson og Erdogan hafi rætt saman í síma á laugardaginn, en Andersson lýsti fundinum sem „góðum“.

Öll aðildarríki NATO þurfa að samþykkja umsóknir ríkja til að þau geti gerst aðilar að bandalaginu. Leiðtogafundurinn í Madríd fer fram dagana 28. til 30. júní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×