Sieveródonetsk, stjórnsýslukjarni Lúhansk-héraðs, hefur legið undir stöðugum loftárásum Rússa undanfarnar vikur. Fyrst um sinn börðust úkraínskir hermenn við rússneska herinn frá húsi til húss í borginni áður en þeir hörfuðu til Azot-efnaverksmiðjunnar í jaðri borgarinnar.
Þar eru þeir enn staðsettir í neðanjarðarmannvirkjum efnaverksmiðjunnar ásamt um 500 almennum borgurum sem leituðu sér einnig skjóls í verksmiðjunni.

Á undanförnum dögum hefur rússneski herinn, staðsettur í kringum Sieveródonetsk og nágrannaborgina Lýsitsjansk, sótt fram við árbakkann hinum megin við Donetsk-fljót í tilraun til að umkringja úkraínska herinn.
Rússneski herinn hefur lagt sérstaka áherslu borgirnar tvær til að hertaka Donbas-hérað endanlega og yfirbuga úkraínsku herdeildirnar þar, einn færasta og forhertasta hluta úkraínska hersins.
Rússneski herinn herðir að
Borgirnar tvær og svæðin þar í kring eru síðustu staðirnir sem Úkraínumenn hafa enn yfirráð yfir í Lúhansk-héraði en rússneski herinn og aðskilnaðarsinnar hafa náð tökum á yfir 95 prósent af svæði héraðsins. Rússar og aðskilnaðarsinnar eru einnig með stjórn á yfir helmingi Donetsk-svæðis.
Serhíy Haidai, héraðsstjóri Lúhansk-héraðs, sagði við AP í dag að úkraínskir hermenn hafi fengið skipun um að yfirgefa Sieveródonetsk til að koma í veg fyrir enn stærri ósigra og forða því að Rússar umkringi úkraínska herinn.
Þá sagði hann að það þýddi ekkert að halda kyrru fyrir í eyðilagðri borg, sérstaklega þegar mannfall hefur aukist undanfarið.
Hann sagði að úkraínskir hermenn hafi fengið „skipanir um að hörfa frá Sieveródonentsk að nýjum stöðum á víggirtum svæðum og haldi áfram andspyrnunni þaðan.“