Innlent

Búið að opna veginn inn í Landmannalaugar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá veginum inn í Landmannalaugar. Vegagerðin segir að unnið sé að heflun á svæðinu. Vegurinn sé frekar holóttur, þá sérstaklega sunnan við Ljótapoll.
Frá veginum inn í Landmannalaugar. Vegagerðin segir að unnið sé að heflun á svæðinu. Vegurinn sé frekar holóttur, þá sérstaklega sunnan við Ljótapoll. Mynd/Stöð 2.

Vegagerðin opnaði í morgun leiðina inn í Landmannalaugar um Sigölduvirkjun. Þá styttist í opnun Landmannaleiðar og búist við að hún verði jeppafær um helgina, samkvæmt upplýsingum Magnúsar Inga Jónssonar hjá umferðarþjónustu Vegagerðarinnar.

Nýtt hálendiskort, sem Vegagerðin birti í morgun, sýnir þau svæði hálendisins skástrikuð þar sem akstur er enn bannaður. 

Nýjasta hálendiskort Vegagerðarinnar, sem birt var í morgun.Vegagerðin

Þótt búið sé að aflétta akstursbanni þýðir það þó ekki að vegurinn sé orðinn fær og þurfa vegfarendur því jafnframt að kynna sér færðarkort Vegagerðarinnar, hyggi þeir á hálendisferðir.

Kjalvegur var fyrsta stóra hálendisleiðin sem opnaðist þetta sumarið en Kjölur varð fær þann 10. júní. Kaldadalsvegur var seinna á ferðinni en hann opnaðist 13. júní. Töluverður snjór er hins vegar enn á Sprengisandsleið og ekki reiknað með að hún opnist fyrr en eftir mánaðamót, að sögn Magnúsar Inga.

Frá Sprengisandsleið.Vísir/Vilhelm

Báðar Fjallabaksleiðir eru enn ófærar. Þó er búið að opna hluta Fjallabaksleiðar nyrðri úr Skaftártungu og upp í Eldgjá. Minnst þriggja vikna bið verður hins vegar í það að leiðin opnist milli Landmannalauga og Eldgjár þar sem brúin yfir Jökulgilskvísl er löskuð. 

Þá er mikill snjór á Mælisfellssandi og ekki búist við að Fjallabaksleið syðri opnist fyrr en eftir mánaðamót.  Þó er búist við að Emstruleið úr Fljótshlíð, vegur F261, verði fær um helgina.

Í Skaftárhreppi er búið að opna Lakaleið að Fagrafossi og vonast til að leiðin að Lakagígum opnist eftir helgi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.