Íslenski boltinn

Ólafur Jóhannesson rekinn frá FH

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson voru í kvöld reknir frá FH ef marka má heimildarmenn Stúkunnar.
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson voru í kvöld reknir frá FH ef marka má heimildarmenn Stúkunnar. Vísir/Vilhelm

Ólafi Jóhannessyni hefur verið sagt upp störfum sem aðalþjálfari FH eftir að liðinu mistókst að vinna enn einn leikinn í Bestu-deild karla í fótbolta í kvöld.

Sérfræðingar Stúkunnar, uppgjörsþáttar Bestu-deildarinnar í fótbolta, fullyrtu það að Ólafur Jóhannesson hafi verið rekinn frá FH í þætti sínum í kvöld. Það hefur nú verið staðfest á heimasíðu FH-inga.

Gengi FH-inga hefur ekki verið upp á marga fiska í upphafi tímabils og liðið er aðeins með átta stig eftir fyrstu níu umferðirnar. Liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Leikni í kvöld og það virðist hafa verið kornið sem fylltu mælinn.

Eftir leik sagði Ríkharð Óskar Guðnason, stjórnandi Stúkunnar, að Ólafur og aðstoðarmaður hans Sigurbjörn Örn Hreiðarsson, hafi verið látnir taka poka sinn strax eftir leik. Hann sagði svo síðar frá því í þættinum að FH-ingar hefðu sent frá sér tilkynningu þess efnis á heimasíðu sinni.

Íþróttafréttamaðurinn Guðmundur Benediktsson virtist þá hafa sömu heimildir og kollegar sínir í Stúkunni, en hann greindi einnig frá þessum tíðindum á Twitter-síðu sinni.

Yfirlýsing FH-inga

„Ólafur Jóhannesson lætur af störfum hjá FH Eftir erfiða byrjun meistaraflokks karla í Bestu deildinni hefur Knattspyrnudeild FH komist að þeirri niðurstöðu að Ólafur Jóhannesson láti af störfum sem þjálfari FH. Ólafur tók við FH liðinu um mitt síðasta tímabil og undir hans stjórn endaði liðið í 6. sæti deildarinnar ásamt því að falla úr leik í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Ólafur kveður FH sem einn af sigursælustu þjálfurum félagsins og mun stundin á Akureyrarvelli 2004 aldrei gleymast. Stjórn knattspyrnudeildar þakkar Ólafi vel unnin störf í gegnum tíðina og óskar honum velfarnaðar.

Sigurbjörn Hreiðarsson lætur einnig af störfum sem aðstoðarþjálfari og þökkum við honum fyrir hans störf fyrir félagið.“

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×