Enski boltinn

Tottenham að fá eftirsóttan miðjumann frá Brighton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Yves Bissouma er að öllum líkindum á leið til Tottenham.
Yves Bissouma er að öllum líkindum á leið til Tottenham. Bryn Lennon/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefur samþykkt að greiða Brighton & Hove Albion 30 milljónir punda fyrir miðjumanninn Yves Bissouma.

Þessi 25 ára miðjumaður verpur því þriðji leikmaðurinn sem Antonio Conte kaupir til félagsins í þessum félagsskiptaglugga. Áður hafði liðið fengið enska markvörðinn Fraser Forster og króatíska vængmanninn Ivan Perisic.

Bissouma á enn eitt ár eftir af samningi sínum við Brighton. Hann hefur leikið 112 deildarleiki fyrir félagið síðan hann var keyptur frá Lille árið 2018, en Lundúnaliðið hafði einnig áhuga á að fá leikmanninn í janúarglugganum.

Búist er við því að Bissouma gangist undir læknisskoðun hjá Tottenham síðar í vikunni. Enn á þó eftir að ganga frá lausum endum í samningum milli Tottenham og leikmannsins.

Tottenham er ekki eina liðið sem hefur fylgst með Bissouma undanfarna mánuði, en ef marka má hinar ýmsu sögusagnir höfðu erkifjendur þeirra í Arsenal einnig áhuga á leikmanninum.

Í september á síðasta ári sagði Bissouma hans tími hjá Brighton væri ekki liðinn, en að hann vildi spila í Meistaradeild Evrópu. Tottenham tryggði sér einmitt sæti í Meistaradeildinni í lokaumferð seinasta tímabils á kostnað Arsenal.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.