Enski boltinn

Man. Utd gerði Eriksen tilboð

Sindri Sverrisson skrifar
Christian Eriksen getur valið úr tilboðum eftir að hafa náð sér vel á strik í vetur.
Christian Eriksen getur valið úr tilboðum eftir að hafa náð sér vel á strik í vetur. Getty

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur gert Dananum Christian Eriksen tilboð í von um að fá þennan þrítuga miðjumann frítt til félagsins í sumar.

The Athletic greinir frá þessu í dag og segir að þó að Frenkie de Jong, miðjumaður Barcelona, virðist vera efstur á óskalista United þá sé félagið með fleiri kosti í sigtinu og þar á meðal sé Eriksen.

Eriksen gerði skammtímasamning við Brentford í vetur en sá samningur rennur út 30. júní. Hann átti sinn þátt í góðu gengi liðsins eftir áramót en Brentford endaði í 13. sæti. Liðið vann sjö af ellefu leikjum sínum með Eriksen í liðinu.

Leikir Eriksen með Brentford voru hans fyrstu eftir að hann hné niður vegna hjartastopps í landsleik með Dönum á EM síðasta sumar.

Forráðamenn Brentford vilja vitaskuld ólmir halda Eriksen en hann vill komast að hjá stærra félagi á nýjan leik, eftir að hafa áður leikið með Inter, Tottenham og Ajax.

„Ég er með nokkur tilboð og valmöguleika sem við erum að skoða og svo tökum við ákvörðun,“ sagði Eriksen við Viaplay í síðasta mánuði. „Ég myndi gjarnan vilja spila í Meistaradeild Evrópu aftur. Ég veit hvað það er gaman en það er ekki nauðsynlegt fyrir mig,“ sagði Eriksen.

United endaði í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og spilar því ekki í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð heldur í Evrópudeildinni.

Nýr stjóri United, Hollendingurinn Erik ten Hag, þjálfaði áður Ajax en þar fékk Eriksen að æfa með varaliðinu fyrri hluta vetrar þegar hann var að koma sér í gang eftir hjartastoppið. Eriksen spilaði fyrir Ajax á árunum 2010-2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×