Íslenski boltinn

Dæmdur í tveggja leikja bann eftir að stuðst var við mynd­bands­upp­töku

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Omar Sowe í leik með Blikum gegn Víking fyrr á leiktíðinni.
Omar Sowe í leik með Blikum gegn Víking fyrr á leiktíðinni. Vísir/Hulda Margrét

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur dæmt Omar Sowe, framherja Breiðabliks í Bestu deild karla í fótbolta, í tveggja leikja bann.

Omar Sowe var í byrjunarliði Breiðabliks er liðið sótti Leikni Reykjavík í Breiðholt þann 29. maí síðastliðinn. Breiðablik vann leikinn 2-1 þökk sé tveimur mörkum Ísaks Snæs Þorvaldssonar.

Sowe var tekinn af velli á 62. mínútu en hann var heppinn að fá ekki rautt spjald vegna atviks sem átti sér stað í leiknum. Á myndbandsupptöku af leiknum má sjá Sowe bersýnilega gefa Brynjari Hlöðverssyni olnbogaskot.

„Hann var svolítið blóðheitur. Hann gaf mér olnbogaskot tvisvar. Það var sérstaklega vont í seinna skiptið. Auðvitað er ég að djöflast í mönnum og reyna að fá þá til að missa hausinn, sem hann gerði. Þá verður maður líka að treysta á dómarar sjái þetta. Maðurinn átti að fara út af,“ sagði Brynjar í viðtali við Fótbolti.net að leik loknum.

Einar Ingi Jóhannsson, dómari, sá atvikið greinilega ekki og því hélt leikurinn áfram eins og ekkert hefði í skorist. Nú hefur Sowe hins vegar verið dæmdur í tveggja leikja bann. Mun hann missa ef leikjum Breiðabliks við Val þann 16. júní og KA fjórum dögum síðar.

„Er það mat nefndarinnar að atvik það sem vitnað er til í greinargerð framkvæmdastjóra frá 31. maí sl. og jafnframt birtist á myndskeiði sem fylgir með greinargerð framkvæmdastjóra, sé alvarlegt agabrot. Atvik hafi hvorki dómari né aðstoðarmenn hans séð,“ segir í úrskurði aganefndar KSÍ.

Sowe hefur skorað tvö mörk í átta leikjum Breiðabliks á leiktíðinni en liðið er með fullt hús stiga að loknum átta umferðum í Bestu deildinni og þá vann liðið öruggan sigur á Val í Mjólkurbikarnum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.