Enski boltinn

Kynþáttahatrið sé nú enn eitt atriðið sem þurfi að komast yfir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Southgate (t.h.) ásamt þeim Sancho og Rashford sem voru báðir fórnarlömb kynþáttahaturs eftir að hafa klúðrað gegn Ítölum síðasta sumar.
Southgate (t.h.) ásamt þeim Sancho og Rashford sem voru báðir fórnarlömb kynþáttahaturs eftir að hafa klúðrað gegn Ítölum síðasta sumar. EPA-EFE/Andy Rain / POOL

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að kynþáttahatur í garð hörunddökkra leikmanna liðsins eftir tapið í vítaspyrnukeppni fyrir Ítalíu í úrslitum Evrópumótsins síðasta sumar gæti haft áhrif á val á spyrnumönnum.

Marcus Rashford, Bukayo Saka og Jadon Sancho klúðruðu allir vítaspyrnu í keppninni við Ítalíu þar sem Ítalir höfðu betur og urðu Evrópumeistarar. Allir þrír urðu þeir fyrir miklu aðkasti á netinu, að miklu leyti rasísku, vegna hörundlitar þeirra.

Southgate var spurður hvort óttast þyrfti kynþáttahatur þegar svartir leikmenn tækju vítaspyrnur.

„Ef svo er, erum við í vandræðum. Við höfum eytt 55 árum í að tala um vítaspyrnur og allt annað sem tengist þeim. Svo nú er komin nýtt atriði sem gerir okkur erfitt fyrir að vinna eitthvað.“

Englendingar hafa ítrekað fallið úr keppni vegna klúðra í vítaspyrnukeppni í gegnum tíðina, til að mynda bæði á EM 2004 og HM 2006. Southgate sjálfur klúðraði víti sem felldi England úr leik á EM 1996.

Hann sagði Saka vera gífurlega hugrakkan fyrir að taka víti hjá félagi sínu, Arsenal, eftir níðið sem hann varð fyrir síðasta sumar.

„En óbeint höfum við skapað nýtt lag vandamála til að komast yfir í vítaspyrnukeppnum,“ segir Southgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×