Erlent

Einn stofnenda Bon Jovi látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Alec John Such á mynd árið 2004.
Alec John Such á mynd árið 2004. AP/M. Kathleen Kelly/NJ Advance Media

Alec John Such, upphaflegur bassaleikari og einn stofnenda glysrokksveitarinnar Bon Jovi, er látinn, sjötugur að aldri. Jon Bon Jovi sjálfur segir Such hafa leikið lykilhlutverk í myndun sveitarinnar.

Hljómsveitin tilkynnti um andlát Such á hvítasunnudag en ekki hefur komið fram hvert banamein hans var. Such var bassaleikari Bon Jovi frá 1983 til 1994. Hann gekk síðar aftur í hljómsveitina þegar hún var tekin inn í frægðarhöll rokksins árið 2018.

Bon Jovi eignaði Such heiður af því að hljómsveitin kom fyrst saman. Hann var æskuvinur trommarans Tico Torres og fékk gítarleikarann og lagahöfundinn Richie Sambora til að gefa sveitinni gaum.

Such var elsti meðlimur Bon Jovi og segir hann að útgáfufyrirtæki sveitarinnar hafi logið um aldur hans.

„Ég var 31 árs þegar ég slóst í hópinn. Ég var drjúgum tíu árum eldri en hinir í hljómsveitinni. Systir mín varð á endanum virkilega reið vegna þess að í blöðunum var henni lýst sem eldri systur minni þó að hún væri yngri í raun og veru,“ sagði Such í viðtali eitt sinn.

Aldursmunurinn leiddi að lokum til þess að Such sagði skilið við hljómsveitina árið 1994.

„Þegar ég var 43 ára byrjaði ég að brenna út. Þetta var eins og vinna og mig langaði ekki til að vinna. Ástæðan fyrir því að ég fór í hljómsveit til að byrja með var að mig langaði ekki til þess að vinna,“ sagði Such.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×