Enski boltinn

Völlurinn í tætlum eftir inn­brot

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Home Park, heimavöllur Plymouth Argyle. Verið var að endurnýja grasið á vellinum en ljóst er að skemmdarverkin munu auka kostnaðinn við það.
Home Park, heimavöllur Plymouth Argyle. Verið var að endurnýja grasið á vellinum en ljóst er að skemmdarverkin munu auka kostnaðinn við það. Plymouth Argyle

Plymouth Argyle lenti í miður skemmtilegu atviki um helgina en brotist var inn á leikvang þess og gras vallarins tætt sundur og saman. 

Plymouth er líklega hvað frægast hér á landi fyrir að vera eitt af liðunum sem fyrrverandi landsliðsmaðurinn Kári Árnason spilaði fyrir. Í dag leikur liðið í C-deildinni á Englandi en stefnir á að komast upp í B-deildina sem fyrst.

Um helgina var brotist inn á heimavöll liðsins, Home Park. Óprúttnir aðilar komu sér yfir girðinguna sem umlykur völlinn, brutust inn í áhaldaskúr og fóru í kjölfarið í skemmtiferð á traktor sem þar var að finna.

Gras vallarins er einfaldlega í tætlum eftir skemmtiferðina. Einnig virðist sem önnur áhöld hafi verið notuð við skemmdarverkin.

Í yfirlýsingu Plymouth segir að endurnýjun á grasi vallarins hafi staðið yfir en nú þurfi félagið að fara í dýrar endurbætur til að hægt verði að spila á vellinum næsta haust. Félagið hefur óskað eftir aðstoð lögreglu og er tilbuið að verðlauna hvern þann sem getur veitt upplýsingar um innbrotsþjófana.

Einnig segir í yfirlýsingu félagsins að innbrotsþjófarnir hafi haft vitneskju um hvernig hlutum er háttað á vellinum þar sem þeir vissu hvar væri auðveldast að komast inn á völlinn og hvaða tól þyrfti til að brjótast inn í áhaldaskúrinn.

Plymouth Argyle endaði í 7. sæti League 1 – ensku C-deildarinnar – á síðustu leiktíð. Var liðið aðeins þremur stigum á eftir Wycombe Wanderers sem fór í umspil um sæti í ensku B-deildinni. Sunderland – sem á endanum komst upp í B-deildina – var aðeins fjórum stigum fyrir ofan Plymouth og ljóst að Pílagrímarnir stefna upp um deild næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×