Erlent

Hryðjuverkamaðurinn í Buffalo lýsir yfir sakleysi

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk biður fyrir utan Tops-stórverslunina í Buffalo þar sem ungi maðurinn myrti tíu manns.
Fólk biður fyrir utan Tops-stórverslunina í Buffalo þar sem ungi maðurinn myrti tíu manns. AP/Matt Rourke

Átján ára karlmaður sem skaut tíu blökkumenn til bana í stórmarkaði í Buffalo í síðasta mánuði lýsti yfir sakleysi sínu þegar ákæra á hendur honum fyrir haturshryðjuverk var tekin fyrir. Saksóknarinn lýsir sönnunargögnunum gegn honum sem yfirgnæfandi.

Þetta er í fyrsta skipti sem ákært er á grundvelli laga gegn innlendri hryðjuverkastarfsemi og hatursglæpum í New York. Sakborningurinn tjáði sig ekki og mikil öryggisgæsla var í réttarsalnum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Enginn vafi leikur á sekt byssumannsins. Sjónarvottar og lögreglumenn sáu hann en auk þess skrifaði hann sjálfur um hugmyndir sínar um yfirburði hvíta kynstofnsins og að hann hygðist fremja morðin og streymdi jafnframt myndbandi af drápunum á netinu.

Maðurinn notaði hálfsjálfvirkan árásarriffil til að fremja morðin og segir lögregla að hann hafi varið verslunina vegna þess að hún er staðsett í hverfi þar sem langflestir íbúar eru svartir. Hann ók um þriggja klukkustunda leið frá heimili sínu í Cinklin í New York til Buffalo.

„Það eru yfirgnæfandi sannanir fyrir sekt sakborningsins. Sakborningurinn var tekinn höndum á vettvangi með vopn í höndunum,“ sagði John Fereleto, aðstoðarumdæmissaksóknari.

Strax eftir árásina var maðurinn ákærður fyrir morð. Á miðvikudag lögðu saksóknarar fram nýja ákæru vega innlendra hryðjuverka og hatursglæps. Hann er sakaður um að hafa myrt að minnsta kosti fimm fórnarlamba sinna vegna kynþáttar eða litarháttar þeirra.


Tengdar fréttir

Buffalo-morðinginn ákærður fyrir hryðjuverk

Maðurinn sem skaut tíu til bana í Buffalo í New York í síðasta mánuði hefur verið ákærður fyrir hryðjuverk. Payton Gendron er átján ára gamall og ætlaði sér sérstaklega að myrða þeldökkt fólk.

Biden lýsir hvítri þjóðernishyggju sem eitri

Hvít þjóðernishyggja er eitur í bandarískum stjórnmálum. Þetta sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti þegar hann heimsótti borgina Buffalo þar sem ungur hvítur maður skaut tíu blökkumenn til bana um helgina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.