Erlent

Til­vist illsku rétt­læti ekki tak­markanir á byssu­eign

Árni Sæberg skrifar
Donald Trump hélt langa ræðu á ráðstefnu landssambands skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum í gær. Þar benti hann á ýmsar aðrar orsakir skotárása í skólum en byssueign almennings.
Donald Trump hélt langa ræðu á ráðstefnu landssambands skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum í gær. Þar benti hann á ýmsar aðrar orsakir skotárása í skólum en byssueign almennings. AP Photo/Michael Wyke

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sagði á samkomu hagsmunasamtaka skotvopnaeigenda í gær að harmleikurinn í Uvalde í vikunni eigi ekki að verða til þess að skotvopn verði tekin af löghlýðnum borgurum.

Aðeins fjórir dagar eru síðan nítján börn og tveir kennarar voru myrt í fólskulegri skotárás í grunnskóla í Uvalde í Bandaríkjunum en það kom ekki í veg fyrir að helstu samtök skotvopna eigenda héldu ráðstefnu í fylkinu.

Margir framámenn í flokki Repúblikana mættu og héldu sumir þeirra tölu á ráðstefnunni, meðal annars forsetinn fyrrverandi Donald Trump.

„Tilvist illsku í heiminum er ekki ástæða til að afvopna löghlýðna borgara. Tilvist illsku er ein helsta ástæðan fyrir því að vopnvæða þá,“ sagði Trump í ræðu sinni.

Háværar deilur hafa sprottið upp í Bandaríkjunum um skotvopnalöggjöf, líkt og alltaf þegar árásir á borð við þá í Uvalde eru framdar en þær eru tíðari þar í landi en nokkurs staðar annars staðar. Þjóðin skiptist í tvær fylkingar, þá sem telja auðvelt aðgengi almennings að öflugum skotvopnum óskynsamlegt og þá sem vilja vopna sem flesta.

Joe Biden Bandaríkjaforseti spurði þjóð sína á dögunum hvenær hún ætlaði að standa uppi í hárinu á hagsmunavörðum skotvopnaframleiðenda. „Þegar Joe Biden skellir skuldinni á framleiðendur skotvopna er hann að tala um venjulega Ameríkana á borð við ykkur,“ sagði Trump í gær og sakaði Demókrata um að nýta sér harmleikinn í Uvalde og mála skotvopnaeigendur uppi sem illa.

Vill stórauka öryggisgæslu frekar en að aðstoða Úkraínu

Forsetinn fyrrverandi lagði til á ráðstefnunni í gær öryggisgæsla í skólum Bandaríkjanna yrði stórefld, til að mynda með því að hafa aðeins einn inngang í hvern skóla og vopnaða verði á vakt öllum stundum. Hann sagði að Bandaríkjaþing ætti að hætta allri aðstoð við Úkraínu og verja peningum frekar í öryggi skólabarna.

„Áður en við byggjum upp restina af heiminum, ættum við að byggja örugga skóla fyrir okkar eigin börn í okkar eigin landi,“ sagði hann og uppskar mikil fagnaðarlæti.

Skólar í Bandaríkjunum eru þegar vel undirbúnir þegar kemur að skotárásum en í þeim eru haldnar sérstakar skotárásaræfingar reglulega og dyr að skólastofum er iðulega styrktar. Margir hafa bent á að slíkar dyr geti valdið öfugum áhrifum miðað við það sem þeim er ætlað en árásarmanninum í Uvalde tókst að læsa sig inni í skólastofu í tæplega fimmtíu mínútur á meðan hann myrti flesta sem voru þar inni.

Ræðu Trumps má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

Kennir dræmri kirkjusókn um frekar en byssueign

Ted Cruz, oldungardeildarþingmaður Texasfylkis, hélt einnig ræðu á ráðstefnunni. Hann talaði gegn óskum Demókrata um bann við hálfsjálfvirkum rifflum á borð við þann sem notaður var í árásinni í Uvalde, og í raun flestum slíkum árásum og bakgrunnsathugunum þeirra sem vilja kaupa skotvopn.

Þess í stað benti hann á hnignun kjarnafjölskyldunnar, minni kirkjusókn almennings, einelti á samfélagsmiðlum og tölvuleiki sem mögulegar orsakir skotárása í bandarískum skólum.

„Harmleikir eins og sá sem varð í vikunni neyða okkur til að spyrja okkur erfiðra spurninga, krefjast þess að við sjáum hvernig menning okkar er að bregðast,“ sagði Cruz en hann er talinn líklegur til að bjóða sig fram í forvali Repúblikana fyrir forsetakosningarnar árið 2024.

Hávær mótmæli fyrir utan

Á meðan skotvopnaeigendur kenndu öllu öðru en skotvopnaeign almennings um árásina í Uvalde á ráðstefnu var fjölmennur hópur mótmælenda kominn saman fyrir utan ráðstefnuhöllina. Sumir þeirra héldu á krossum skreyttum myndum barnanna sem myrt voru í árásinni á meðan aðrir hrópuðu að ráðstefnugestum að þeir væru morðingjar og ættu að skammast sín, að því er segir í frétt AP.

Beto O’Rourke, mótframbjóðandi Abbotts, ríkisstjóra Texas, var mættur á mótmælin líkt og búast mátti við. Hann fór yfir lista fyrri skotárása í skólum í Bandaríkjunum og kallaði til þess að þeir sem viðstaddir voru ráðstefnuna gengu til liðs við málsstaðinn og kæmu í veg fyrir fleiri árásir í landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×