Íslenski boltinn

Þróttur fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þróttur er á leið í átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna.
Þróttur er á leið í átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna. Vísir/Diego

Þróttur R. varð í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna þegar liðið vann 2-1 sigur gegn Lengjudeildarliði Víkings R. í Reykjavíkurslag í kvöld.

Þróttur fór alla leið í úrslit í fyrra þar sem liðið þurfti að sætta sig við silfrið eftir tap gegn Breiðabliki.

Enn var markalaust þegar flautað var til hálfleiks, en fyrsta mark leiksins leit ekki dagsins ljós fyrr en að rétt rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Það skoraði Katla Tryggvadóttir af miklu öryggi af vítapunktinum.

Gestirnir í Víking voru þó ekki lengi að svara fyrir sig og aðeins tveimur mínútum síðar var Sigdís Eva Bárðardóttir búin að jafna metin með góðu marki.

Ekki létu heimakonur það þó slá sig út af laginu því aðeins fimm mínútum eftir jöfnunarmarkið komust þær í forystu á ný með marki frá Sæunni Björnsdóttur.

Það reyndist seinasta mark leiksins og niðurstaðan því 2-1 sigur heimakvenna. Þróttur er því á leið í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins, en Víkingur situr eftir með sárt ennið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.