Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 1-0 ÍBV | Einstaklingsframtak Óla Vals tryggði Stjörnunni stigin þrjú

Atli Arason skrifar
Óli Valur skoraði fallegt mark.
Óli Valur skoraði fallegt mark. Vísir/Vilhelm

Stjarnan sigraði ÍBV á Samsung vellinum í 8. umferð Bestu-deildar karla, 1-0, eftir glæsilegt mark frá Óla Val Ómarssyni.

Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti og fyrstu mínúturnar voru alfarið leiknar á vallarhelming Stjörnunnar. Gestirnir náðu þó ekki að skapa sér hættuleg marktækifæri heldur voru það heimamenn í Stjörnunni sem voru nær því að skora á 8. mínútu þegar Eiður Aron, leikmaður ÍBV, bjargar á marklínu eftir skot Emils Atlasonar beint úr aukaspyrnu.

Að öðru leyti var fyrri hálfleikur frekar tíðindalítill. Emil Atlason slapp einn í gegn á 22. mínútu en Guðjón Orri í marki ÍBV sér við markahæsta leikmanni mótsins með því að verja skotið hans Emils. Fleira markvert skeði ekki í fyrri hálfleik sem lauk markalaus.

Stjörnumenn komu af krafti út í síðari hálfleik og þegar seinni hálfleikurinn var fimm mínútna gamall á Björn Berg Bryde, leikmaður Stjörnunnar, marktilraun sem fer í utanverða stöngina á marki ÍBV.

Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður ÍBV, bjargar á næstu mínútum frábærlega þegar hann ver allt sem heimamenn bjóða upp á. Það þurfti glæsimark frá Óla Val Ómarssyni, leikmanni Stjörnunnar, til þess að sigra Guðjón í dag. Á 60. mínútu fékk Óli Valur boltann út við hornfánann hægra megin, Óli leikur framhjá hverjum varnarmanni ÍBV á fætur öðrum og nær að koma boltanum framhjá Guðjóni eftir að Óli er kominn vel inn í vítateig Eyjamanna eftir knattrak frá hornfánanum.

ÍBV svaraði marki Stjörnunnar með því að bæta í sóknarleik sinn og þeim tókst að skapa sér nokkur góð marktækifæri en inn vildi boltinn ekki.

Þegar tvær mínútur voru eftir ætlaði allt um koll að keyra þegar Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður ÍBV, fellur inn í vítateig Stjörnunnar. Pétur dómari hefur engan áhuga á að dæma vítaspyrnu við litla hrifningu viðstaddra á varamannabekk ÍBV. Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, fékk gult spjald fyrir mótmæli en Atli Hrafn, leikmaður ÍBV, fékk á sama tíma að líta á rauða kortið vegna kröftugra mótmæla.

Fór svo að lokum að Stjarnan vann eins marks sigur sem lyftir liðinu í annað sæti deildarinnar með 17 stig. Eyjamenn eru áfram í 11. sæti með þrjú stig.

Afhverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn sköpuðu sér mörg færi en ÍBV áttu líka alveg sín færi. Þegar öllu er á botninn hvolft var það glæsimark Óla Vals sem skilur liðin af en Eyjamenn náðu ekki að koma knettinum yfir línuna í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður ÍBV, átti þó nokkrar frábærar markvörslur sem hélt gestunum inn í leiknum. Til að mynda sá hann til þess að markahæsti leikmaður deildarinnar, Emil Atlason, fengi ekki að bæta í markafjölda sinn í kvöld.

Óli Valur Ómarsson, var alltaf ógn í liði Stjörnunnar. Hann skapaði mörg færi af hægri væng og skoraði svo þetta mark sem skildi liðin af.

Hvað gerist næst?

Það er landsleikjahlé framundan og því verður gert stutt hlé á deildinni. Stjarnan fer næst í heimsókn til Keflavíkur 16. júní en Eyjamenn fá Íslandsmeistara Víkings í heimsókn degi fyrr.

„Við vissum að við myndum halda áfram að skapa okkur færi og skora mörk“

Jökull Elísabetarson og Ágúst Gylfason, þjálfarateymi Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, gat leyft sér að vera glaður eftir 1-0 sigur liðsins á Keflavík í dag.

„Þetta var þolinmæðissigur. Við vissum að við vorum að spila nokkuð vel úti á vellinum en við vorum að halda vel í boltann og skapa okkur ágætis færi. Hálfleiksræðan í stöðunni 0-0 var bara að halda áfram, við vissum að við myndum halda áfram að skapa okkur færi og skora mörk. Við skoruðum svo eitt frábært mark en Óli Valur átti frábært hlaup inn í teiginn og gerði mjög vel. Það var sætt að sjá boltann í netinu,“ sagði Ágúst í viðtali við Vísi eftir leik.

„Hann [Óli Valur] var góður í dag en það voru líka alveg fleiri sem voru líklegir til að skora, við fengum nokkur fín færi. Það er fyrir öllu að eiga góða frammistöðu og halda hreinu. Mjög gott að fá þrjú stig í dag.“

Stjörnumenn misstu Björn Berg Bryde af velli á 75. mínútu þegar hann virðist hafa lent í alvarlegum meiðslum. Björn gat ekki stigið í löppina og þurfti aðstoð til að fara af leikvelli.

„Ég held að hann hafi misstigið sig, við þurfum að skoða þetta betur. Við fáum kærkomið frí þar sem næsti leikur er 16. júní. Það er langt í næsta leik en hingað til hefur þetta verið löng törn en skemmtileg. Við erum á góðum stað í deildinni og við ætlum að koma sterkari til baka eftir fríið,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Stjörnunnar.

„Það vantar bara að skora“

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, er þreyttur á því að þurfa að endurtaka sig í viðtölum eftir leiki. Hann telur þó nálægt í fyrsta sigurinn.

„Djöfull. Ég er orðinn þreyttur á að segja þetta, frammistaðan var frábær og ég get ekki kvartað. Það vantar bara að skora,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, í viðtali við Vísi eftir leik.

Eyjamönnum hefur gengið illa að finna netmöskvana í sumar en aðeins botnlið Leiknis hefur skorað færri mörk á tímabilinu. Hermann var spurður af því hvað vantaði upp á í markaskorun liðsins.

„Þetta er ákveðin herslumunur, við erum með fullt af fyrirgjöfum og skot á mark. Það vantar kannski aðeins að við vöndum okkur betur, við erum nálægt þessu. Þetta var skemmtilegur leikur á móti stórskemmtilegu Stjörnu liði, þeir eru búnir að vera rosa sprækir. Ég er sáttur með frammistöðuna þrátt fyrir að við fengum enginn stig,“ svaraði Hermann.

„Við erum að bíta frá okkur í hverjum leik, það vantar bara aðeins upp á. Við þurfum að bara að vinna fyrsta leikinn til að brjóta þetta upp. Við mætum til baka, það er alveg 100 prósent.“

Framundan er tveggja vikna landsleikjahlé á deildinni. Hermann og Eyjamenn ætla að nýta tímann til að laga það sem vantar upp á í leik liðsins.

„Verðum við ekki bara að skora svolítið,“ sagði Hermann og mátti sjá glott við tönn. „Það er svona fyrst og fremst. Það eru samt auðvitað mörg atriði sem við þurfum að fara yfir. Við munum nýta tímann til að þétta hópinn og ég get lofað því, það er frábær stemning í hópnum í Eyjum. Við munum áfram mæta eins og brjálæðingar í alla leiki í sumar,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.