Erlent

For­eldrar reyndu sjálfir að bjarga börnum sínum

Árni Sæberg skrifar
Nevaeh Bravo var ein þeirra nítján barna sem myrt voru í skotárás í Uvalde í Texas
Nevaeh Bravo var ein þeirra nítján barna sem myrt voru í skotárás í Uvalde í Texas AP Photo/Jae C. Hong

Árásarmaðurinn sem myrti nítján börn og tvo kennara í grunnskóla í Texas í fyrradag sendi skilaboð á Facebook um að hann ætlaði að fremja skotárás í grunnskóla um fimmtán mínútum áður en hann lét til skarar skríða. Lögreglan í Uvalde hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi.

Rannsakendur málsins segja ekkert liggja fyrir um hvers vegna hinn átján ára gamli Salvador Ramos ákvað að fremja voðaverkið í smábænum Uvalde í Texas. Hann hafi hvorki verið á sakaskrá né glímt við andleg veikindi, að því er vitað sé.

Áður en hann framdi árásina sendi hann þrenn skilaboð á Facebook. Fyrst um að hann ætlaði að skjóta ömmu sína, sem hann og gerði, og loks um að hann ætlaði að fremja skotárás í grunnskóla. Að svo stöddu liggur ekki fyrir á hvern Ramos sendi skilaboðin.

Aðgerðaleysi lögreglunnar harðlega gagnrýnt

Lögreglan í Uvalde hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir viðbrögð sín við árásinni, sem talin er hafa staðið yfir í allt að fjörutíu mínútur áður en Ramos var skotinn til bana. Lögreglulið var komið á vettvang örskömmu eftir að Ramos kom að skólanum en samt tókst honum að loka sig af inni í kennslustofu fyrir fjórða bekk.

Þar inni myrti hann nítján börn, flest tíu ára að aldri, og tvo kennara.

 „Farið inn! Farið inn!“ öskruðu viðstaddir á lögregluliðið, að sögn Juans Carranza, sem ræddi við AP fréttaveituna eftir að hann varð vitni að árásinni.

Þá segir Javier Cazares, íbúi Uvalde, að hann hafi drifið sig að skólanum um leið og hann heyrði af árásinni. Þegar þangað var komið hafi hann stungið upp á því við viðstadda að þeir réðust inn í skólann þar sem lögreglan virtist ekkert ætla að aðhafast.

„Þeir hefðu geta gert meira. Þeir voru ekki undirbúnir,“ segir hann.

Dóttir Cazares, Jacklyn, lést í árásinni.

Myndband sem er í dreifingu á netinu sýnir hvernig lögreglumenn komu í veg fyrir að almennir borgarar réðust inn í skólann.

Afa árásarmannsins grunaði ekki neitt

Sem áður segir liggur ekkert fyrir um ástæð Ramos fyrir árásinni. Fréttamenn náðu tali af afa hans, Rolando Reyes, fyrir utan heimili þeirra í Uvalde.

„Ég vissi ekki neitt. Ég veit ekki neitt,“ sagði hann við fréttamann í miklu uppnámi.

Hann sagðist ekki hafa vitað af því að Ramos ætti byssur, en hann hafði keypt tvo árásarriffla skömmu eftir átján ára afmæli sitt á dögunum.

Hann sagði jafnframt að eiginkona hans og amma árásarmannsins, sem hann skaut, sé ekki í lífshættu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×