Erlent

Skutu þremur eldflaugum og undirbúa tilraun með kjarnorkuvopn

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, í sjónvarpi í Suður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, í sjónvarpi í Suður-Kóreu. AP/Lee Jin-man

Þremur eldflaugum var skotið á loft frá Norður-Kóreu í nótt og þar á meðal einni sem talin er vera stærsta langdræga eldflaugin sem verkfræðingar einræðisríkisins hafa þróað. Kóreumenn hafa einnig verið að gera tilraunir með nýjan sprengibúnað fyrir kjarnorkuvopn og er það talið í undirbúningi fyrir sjöunda kjarnorkuvopnatilraun ríkisins.

Þetta er í sautjánda sinn sem eldflaugum er skotið frá Norður-Kóreu á þessu ári, í trássi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Fyrsta eldflaugin sem skotið var á loft í nótt flaug í um 540 kílómetra hæð og um 360 kílómetra frá skotstaðnum. Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni telja ráðamenn í Suður-Kóreu að það hafi verið langdræg eldflaug af gerðinni Hwason-17.

Það er stærsta og langdrægasta eldflaug Norður-Kóreu og getur hún borið kjarnorkuvopn.

Sjá einnig: Segja skot stærstu eldflaugarinnar hafa verið sviðsett

Önnur eldflaugin er talin vera skammdræg eldflaug sem sögð er hafa náð tuttugu kílómetra hæð og horfið af ratsjám, sem þykir til marks um eldflaugaskotið hafi misheppnast og eldflaugin sprungið.

Þriðja eldflaugin fór um 760 kílómetra og var mest í um sextíu kílómetra hæð.

Í frétt Reuters segir að í Suður-Kóreu hafi heimamenn og Bandaríkjamenn haldið æfingar í notkun eigin eldflauga. Það hafi verið gert eftir eldlaugaskotin frá Norður-Kóreu.

Undirbúa kjarnorkuvopnatilraun

Þá segir Yonhap frá því að ráðamenn í Suður-Kóreu hafi komist að því að verkfræðingar Norður-Kóreu hafi verið að gera tilraunir með sprengibúnað fyrir kjarnorkuvopn. Til standi að gera sjöundu kjarnorkuvopnatilraunina í Norður-Kóreu.

Haft er eftir Kim Tae-hyo, sem situr í þjóðaröryggisráði Suður-Kóreu að það standi kannski ekki til á næstu tveimur dögum en útlit sé fyrir að gerð verði ný kjarnorkuvopnatilraun á næstunni.

Síðasta kjarnorkuvopnatilraunin í Norður-Kóreu fór fram árið 2017.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.