Erlent

Fimmtán látnir eftir skotárás í grunnskóla í Texas

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AP Photo/Dario Lopez-Mills

Fjórtán nemendur og einn kennari eru látin eftir mannskæða skotárás í grunnskóla í bænum Uvalde í Texas-ríki Bandaríkjanna. 

Þetta kom fram í máli Greg Abbott, ríkisstjóra Texas, á blaðamannafundi í kvöld vegna skotárásarinnar. Blaðamenn CNN greina frá því á Twitter að Abbott hafi sagt að fjórtán nemendur skólans hafi látist, auk eins kennara.

Abbott greindi frá því að árásarmaðurinn, Salvador Ramos, að nafni hafi verið átján ára gamll og að hann hafi látið lífið í skotárásinni. Sagði Abbott að Ramos hafi verið vopnaður skammbyssu og mögulega riffli.

Snemma var ljóst að um alvarlega skotárás var að ræða. Skömmu eftir að fregnir af henni brutust út greindi spítalinn í Uvalde frá því að tvö börn sem flutt voru á spítalann eftir skotárásina væru látin. Alls voru þrettán fluttir á spítalann eftir árásina.

Frá vettvangi.AP Photo/Dario Lopez-Mills

Ljóst er að skotárásin er ein sú mannskæðasta í skóla í Bandaríkjunum frá upphafi, en skotárásir í skólum hafa verið tíðar þar undanfarin ár og áratugi.

Mannskæðasta skotárásin var framin í Virginia Tech-háskólanum árið 2007 þegar 33 voru skotnir til bana.

Mannskæðasta skotárásin í grunnskóla í Bandaríkjunum var framin árið 2012 í Sandy Hook grunnskólanum í Connecticut, þegar 28 létust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×