Erlent

Musk hafnar á­sökunum og vill koma á fót mál­sóknar­teymi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Musk segir ásakanirnar ekki eiga við rök að styðjast, heldur séu þær liður í pólitískum árásum Demókrataflokksins í sinn garð.
Musk segir ásakanirnar ekki eiga við rök að styðjast, heldur séu þær liður í pólitískum árásum Demókrataflokksins í sinn garð. Dimitrios Kambouris/Getty

Ríkasti maður heims, Elon Musk, hafnar þeim ásökunum sem á hann eru bornar um kynferðislega áreitni. Greint var frá því á dögunum að flugfreyja sem starfaði fyrir fyrirtæki hans sakaði hann um að hafa berað sig við konuna, káfað á henni og boðið henni greiðslu fyrir kynlíf.

Business Insider greindi frá málinu í fyrradag, og sagði atvikið hafa átt sér stað árið 2016. Fyrirtækið sem flugfreyjan starfaði hjá, Space-X, er þá sagt hafa greitt konunni 250.000 dollara sátt í málinu, gegn því að hún undirritaði þagnarsamkomulag.

Þá hefur Musk skorað á vinkonu flugfreyjunnar, sem Business Insider vísar til í umfjöllun sinni, að lýsa einhverju á líkama hans, til að mynda örum eða húðflúrum, sem ekki sé á vitorði almennings.

„Hún mun ekki geta það, því þetta gerðist aldrei,“ tísti Musk í gær.

Musk hefur sagt ásakanirnar runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna, sem hann segir leynast innan raða Demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Hann hefur þó ekki nafngreint neinn þessara meintu pólitísku andstæðinga.

Áður en fréttir af ásökunum á hendur Musk birtust hafði suðurafríski auðmaðurinn varað við því á Twitter að pólitískar árásir á hann myndu stigmagnast á næstu mánuðum. Þá sagðist hann áður hafa kosið Demókrata, en nú væri hann orðinn Repúblikani, þar sem fyrrnefndi flokkurinn væri flokkur sundrungar og haturs. Í sömu andrá sagðist hann telja að árásir Demókrata í hans garð myndu koma í ljós.

Í gær greindi Musk frá því að fyrirtæki hans, Tesla, hygðist koma á fót teymi lögfræðinga sem væri sérstaklega hugsað til þess að hefja og framkvæma málsóknir. Frá þessu greindi auðmaðurinn á Twitter, og auglýsti þar með eftir umsóknum í teymið.

Musk stendur nú í ströngu á sviði samfélagsmiðla, en fyrir skemmstu var greint frá því að hann hefði fengið samþykkt 44 milljarða dollara kauptilboð sitt í samfélagsmiðilinn Twitter. Nýjustu fregnir af kaupunum herma þó að hann vilji breyta samningnum eða komast undan honum, þar sem hann telji hlutfall gervireikninga á samfélagsmiðlinum hærra en áður var talið. Stjórn Twitter ætlar hins vegar að freista þess að láta Musk standa við gerðan samning. 

Musk hefur undanfarna daga sagt að ekki sé hægt að ljúka viðskiptunum fyrr en botn fæst í hversu hátt hlutfall reikninga á Twitter eru yrki sem birta amapósta. Hann heldur því fram að hlutfallið sé allt að fjórfalt hærra en þau innan við 5% sem Twitter hefur sagt í tilkynningum til bandarískra yfirvalda í gegnum tíðina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.