Erlent

Banna þungunarrof eftir frjóvgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Andstæðingur þungunarrofs með biblíu á lofti við Hæstarétt Bandaríkjanna. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Andstæðingur þungunarrofs með biblíu á lofti við Hæstarétt Bandaríkjanna. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Repúblikanar á ríkisþingi Oklahoma í Bandaríkjunum samþykktu frumvarp að ströngustu þungunarrofslögum í landinu í dag. Verði frumvarpið að lögum verður þungunarrof bannað eftir frjóvgun eggs nema í algerum undantekningartilfellum.

Frumvarpið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á ríkisþinginu í dag. Sjötíu og þrír þingmenn greiddu atkvæði með því en aðeins sex á móti. Einu undantekningarnar í frumvarpinu eru ef bjarga þarf lífi konu eða ef kona er með barni eftir nauðgun eða sifjaspell sem hefur verið tilkynnt til lögreglu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahoma og repúblikani, hefur gefið til kynna að hann ætli að staðfesta lögin með undirskrift sinni. Hann hefur heitið því að gera Oklahoma að fjandsamlegasta ríki Bandaríkjanna fyrir konur sem sækjast eftir þungunarrofi, að sögn New York Times.

Nú þegar er þungunarrof bannað eftir sjöttu viku meðgöngu í Oklahoma en ríkið er eitt nokkurra sem fór að fordæmi Texas og bannaði þungunarrof eftir að hægt er að greina hjartslátt fósturs. 

Líkt og lögin í Texas eiga almennir borgarar að framfylgja nýju lögunum í Oklahoma. Þeim væri umbunað fyrir að höfða mál gegn þeim sem brjóta lögin. Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfði lögunum í Texas að taka gildi þrátt fyrir að þau stönguðust á við dómafordæmi vegna lagatæknilegra álitamála um þetta ákvæði þeirra.

Önnur lög sem eiga að taka gildi í sumar gera þungunarrof refsivert að viðlögðu allt að tíu ára fangelsi með engum undantekningum fyrir nauðgun eða sifjaspell.

Fjöldi ríkja þar sem íhaldssamir repúblikanar fara með völd flýtir nú í gegn nýjum og ströngum lögum um þungunarrof þar sem allt stefnir í að stjórnarskrárvarinn réttur kvenna til þess verði afnuminn á næstu vikum. Meirihlutaálit Hæstaréttar Bandaríkjanna sem var lekið nýlega bendir til þess að íhaldssamir dómarar, skipaðir af repúblikönum, búi sig undir að snúa við hálfrar aldar gömlu dómafordæmi um stjórnarskráin tryggi konum rétt til þungunarrofs.


Tengdar fréttir

Óttast að fleiri réttindi gætu fallið eftir þungunarrofsdóm

Fleiri dómafordæmi sem tryggja grundvallarréttindi gætu verið í hættu ef Hæstiréttur Bandaríkjanna sviptir konur rétti til þungunarrofs. Ýmis önnur réttindi byggjast á forsendum sem meirihluti réttarins býr sig nú undir að hafna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×