Forsætisráðherrann Sanna Marin telur að Finnland kunni að verða orðið aðildarríki að NATO þegar á þessu ári.EPA
Yfirgnæfandi meirihluti á finnska þinginu greiddi í hádeginu atkvæði með tillögu um að landið sæki um aðild að NATO.
188 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni, en einungis átta þingmenn gegn að því er segir í frétt YLE. Reiknað er með að forsetinn Sauli Ninistöö muni nú skrifa undir aðildarumsókn Finnlands.
Forsætisráðherrann Sanna Marin segist bjartsýn á að ferlið muni ganga hratt fyrir sig. Hún sagði í gær að hún telji að Finnland kunni að verða orðið aðildarríki þegar á þessu ári. Stuðningur við NATO-aðild Finna jókst mikið eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, skrifaði í morgun undir umsókn landsins að NATO.
Tyrknesk stjórnvöld hafa sett sig upp á móti NATO-aðild Svíþjóðar og Finnlands.
Utanríkisráðherra segir óviðeigandi af Tyrkjum að setja ótengd mál á dagskrá vegna umsóknar Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu. Hún gerir ráð fyrir að málið verði leyst.
Búið er að flytja 260 úkraínska hermenn frá Azovstal-stálverksmiðjunni í Maríupól, þar af marga alvarlega særða. Ekki er ljóst hversu margir eru eftir en áætla má að þeir séu um 350. Rússar virðast nú hafa náð Maríupól alfarið á sitt vald.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.