Innlent

Óviðeigandi af Tyrkjum að setja ótengd mál á dagskrá

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. vísir/Vilhelm

Utanríkisráðherra segir óviðeigandi af Tyrkjum að setja ótengd mál á dagskrá vegna umsóknar Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu. Hún gerir ráð fyrir að málið verði leyst.

Stjórnvöld í Tyrklandi segjast ekki munu samþykkja umsóknir Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu vegna tengsla þeirra við Kúrda - sem þau telja hryðjuverkamenn. Öll aðildarríki NATO þurfa að samþykkja stækkun bandalagsins og gætu Tyrkir þannig komið í veg fyrir inngöngu ríkjanna. Öll önnur ríki eru sögð styðja aðildina og freista ráðamenn þess nú að stilla til friðar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir málið í farvegi innan bandalagsins og samtöl í gangi.

„Og ég met það þannig að það séu slíkir hagsmunir undir; öryggis- varnartengdir, pólitískir og annað, að úr þessu leysist.“

Stjórnvöld í Svíþjóð og Finnlandi hafa samþykkt að sækja um aðild að NATO.vísir/getty

Íslensk stjórnvöld hyggjast staðfesta samning um inngöngu ríkjanna og utanríkisráðherra gagnrýnir andstöðu Tyrkja.

„Mér finnst ekki viðeigandi að setja í raun ótengd mál á dagskrá og láta þau flækjast fyrir þeirri miklu pólitísku samstöðu innan NATO um að bjóða þessi tvö ríki velkomin,“ segir Þórdís Kolbrún.

Finnar eiga 1.300 kílómetra landamæri að Rússlandi og Vladímir Pútín Rússlandsforseti sagði í gær að stækkun bandalagsins kalli á möguleg viðbrögð. Utanríkisráðherra segir Svía og Finna eiga algjöran sjálfsákvörðunarrétt um tilhögun sinna varnar- og öryggismála.

„Og það að ganga inn í varnarbandalag - sem er ekki árásarbandalag, heldur varnarbandalag sem hefur í hávegum þessi gildi þar sem þessi ríki eru mjög sterk; lýðræði, mannréttindi, réttarríki, einstaklingsfrelsi, það á ekki að stafa nein ógn af því. Hvorki Rússum né neinum öðrum,“ segir Þórdís Kolbrún.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.