Íslenski boltinn

Sjáðu slysamark í Keflavík og öll hin mörkin á Víkingakvöldi í Bestu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Guðjónsson skoraði á móti sínum gömlu félögum í gær þegar hann kom Víkingi í 1-0 á móti Fram.
Helgi Guðjónsson skoraði á móti sínum gömlu félögum í gær þegar hann kom Víkingi í 1-0 á móti Fram. Vísir/Hulda Margrét

Víkingarnir úr Reykjavík og Keflavík röðuðu inn mörkum í Bestu deildinni í fótbolta í gærkvöld og nú má sjá þessi mörk inn á Vísi.

Íslandsmeistarar Víkings unnu 4-1 heimasigur á Fram og Keflvíkingar unnu 3-0 heimasigur á Leikni úr Reykjavík. Eftir leikinn eru Víkingar í fjórða sæti deildarinnar en eftir sinn fyrsta sigur í sumar þá eru Keflvíkingar í níunda sæti.

Keflvíkingar komust yfir á móti Leikni í upphafi leiks eftir slysamark þar sem Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis, missti boltann eftir að hafa stokkið á fyrirliða sinn. Adam Ægir Pálsson þakkaði pent fyrir og setti boltann í markið. Bjarki Aðalsteinsson, fyrirliði Leiknis, þurfti að fara af velli eftir þetta samstuð við sinn eigin markmann.

Klippa: Mörkin úr leik Víkings og Fram

Leiknismenn voru reyndar ekki hættir að gefa mörk því annað mark Keflvíkingar kom eftir að Leiknisliðið gaf boltann tvisvar frá sér á nokkrum sekúndum fyrir framan eigin vítateig. Þriðja markið var það eina sem var ekki á algjöru útsöluverði. Patrik Johannesen skoraði annað markið og Helgi Þór Jónsson það þriðja.

Reykjavíkur Víkingar komust í 3-0 í fyrri hálfleiknum eftir tvö mörk frá Erlingi Agnarssyni og eitt frá gamla Framaranum Helga Guðjónssyni sem kom Víkingsliðinu á bragðið í leiknum.

Hlynur Atli Magnússon minnkaði muninn fyrir Framara en síðan gerði Delphin Tshiembe þau mistök að senda boltann í eigið mark.

Hér fyrir ofan og neðan má sjá mörkin úr þessum tveimur leikjum frá því í gærkvöldi.

Klippa: Mörkin úr leik Keflavíkur og Leiknis



Fleiri fréttir

Sjá meira


×