Íslandsmeistarar Víkings unnu 4-1 heimasigur á Fram og Keflvíkingar unnu 3-0 heimasigur á Leikni úr Reykjavík. Eftir leikinn eru Víkingar í fjórða sæti deildarinnar en eftir sinn fyrsta sigur í sumar þá eru Keflvíkingar í níunda sæti.
Keflvíkingar komust yfir á móti Leikni í upphafi leiks eftir slysamark þar sem Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis, missti boltann eftir að hafa stokkið á fyrirliða sinn. Adam Ægir Pálsson þakkaði pent fyrir og setti boltann í markið. Bjarki Aðalsteinsson, fyrirliði Leiknis, þurfti að fara af velli eftir þetta samstuð við sinn eigin markmann.
Leiknismenn voru reyndar ekki hættir að gefa mörk því annað mark Keflvíkingar kom eftir að Leiknisliðið gaf boltann tvisvar frá sér á nokkrum sekúndum fyrir framan eigin vítateig. Þriðja markið var það eina sem var ekki á algjöru útsöluverði. Patrik Johannesen skoraði annað markið og Helgi Þór Jónsson það þriðja.
Reykjavíkur Víkingar komust í 3-0 í fyrri hálfleiknum eftir tvö mörk frá Erlingi Agnarssyni og eitt frá gamla Framaranum Helga Guðjónssyni sem kom Víkingsliðinu á bragðið í leiknum.
Hlynur Atli Magnússon minnkaði muninn fyrir Framara en síðan gerði Delphin Tshiembe þau mistök að senda boltann í eigið mark.
Hér fyrir ofan og neðan má sjá mörkin úr þessum tveimur leikjum frá því í gærkvöldi.