Erlent

Útlit fyrir sögulegan sigur Sinn Fein

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leiðtogar Sinn Fein taka sjálfu í tilefni dagsins. Flokkurinn vill aðskilnað frá Bretlandi og sameiningu við Írland.
Leiðtogar Sinn Fein taka sjálfu í tilefni dagsins. Flokkurinn vill aðskilnað frá Bretlandi og sameiningu við Írland. epa

Allt stefnir í stórsigur Sinn Fein í kosningunum á Norður-Írlandi. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem flokkur þjóðernissinna er stærsti flokkur landsins. 

Eins og sakir standa hefur Sinn Fein tryggt sér 23 þingsæti, Lýðræðislegi sambandsflokkurinn 23, Bandalagsflokkurinn 17 þingmenn, Sambandssinnaflokkur Ulster 9 og Sósíaldemókrata- og Verkamannaflokkurinn 6.

Michelle O'Neill, varaforseti Sinn Fein, segir niðurstöðurnar endurspegla umtalsverðar breytingar. „Þetta er mikilvæg stund fyrir stjórnmálin okkar og fólkið okkar,“ sagði hún eftir að hafa náð endurkjöri í sínu kjördæmi.

„Dagurinn í dag markar upphaf nýs tímabils sem ég tel munu færa okkur öllum tækifæri til að endurhugsa sambönd í þessu samfélagi á grundvelli sanngirni, á grundvelli jafnréttis og á grundvelli samfélagslegs réttlætis.“

O'Neill sagðist vilja vinna að uppbyggingu í samvinnu, ekki með sundrung.

Jeffrey Donaldson, leiðtogi Lýðræðislega sambandsflokksins játaði flokkinn sigraðan fyrr í dag en sagði hann munu halda áfram að beita sér fyrir breytingum á bókunni um Norður-Írland, sem varð til þegar Bretar gegnu úr Evrópusambandinu.

Bókunin snérist um að Norður-Írland yrði áfram hluti af sameiginlegum markaði Evrópusambandsins. Hún hefur hins vegar verið óvinsæl á meðal sumra sambandssinna, þar sem hún þykir auka flækjustigið í viðskiptum milli Norður-Írlands og Bretlands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.