Enski boltinn

Man Utd eytt 5.7 milljónum punda í hvert stig frá því Sir Alex Fergu­son hætti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire kostaði Manchester United 87 milljónir punda haustið 2019.
Harry Maguire kostaði Manchester United 87 milljónir punda haustið 2019. EPA-EFE/ANDREW YATES

Síðan hinn goðsagnakenndi Sir Alex Ferguson hætti sem þjálfari Manchester United hefur félagið eytt 5.7 milljónum punda í leikmannakaup og laun fyrir hvert stig sem það hefur fengið í ensku úrvalsdeildinni. Það samsvarar 927 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi.

Þetta kemur fram í samantekt sem birtist á The Telegraph. Þar er vitnað í rannsókn Stefan Szymanski – sem skrifaði til að mynda bókina Soccernomics – og Kieran Maguire, fyrirlesara um fjármál í fótbolta við háskólann í Liverpool.

Tilgangur rannsóknarinnar var að sjá svart á hvítu hvaða félög hafa eytt peningum sínum á skynsaman – og árangursríkan máta – og hvaða félög eru í raun að brenna peninga. Man United fellur undir síðari skilgreininguna. 

Rannsóknin náði frá 2010 til 2020. Þar kemur fram að frá því að Sir Alex hætti vorið 2013 hafi Manchester United eytt 2.7 milljörðum punda í leikmannakaup og laun þeirra, meira en nokkuð annað félag í ensku úrvalsdeildinni. Þrátt fyrir það tókst liðinu ekki að vinna einn einasta meistaratitil og í raun aldrei verið nálægt því.

Samkvæmt útreikningum þeirra kostaði hvert stig sem Man Utd vann sér inn á þeim tíma 5.67 milljónir punda. Yfir tímann sem rannsóknin stóð yfir eyddi Manchester City 4.56 milljónum punda fyrir hvert stig sem safnað var í pokann. Á þeim tíma varð félagið þrívegis enskur meistari.

Tottenham Hotspur kemur hvað best út úr rannsókninni en félagið eyddi 1.41 milljarði punda og náði í 699 stig. Það er milljarði punda minna en Arsenal eyddi til þess eins að ná einu stigi meira.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.