Erlent

Vaktin: Sökktu Moskvu með hjálp Bandaríkjanna

Hólmfríður Gísladóttir og Samúel Karl Ólason skrifa
Moskva sökk þann 14. apríl.
Moskva sökk þann 14. apríl.

Úkraínuher hefur tekist að fella fjölda rússneskra herforingja með því að nýta upplýsingar frá öryggisyfirvöldum í Bandaríkjunum. Upplýsingarnar hafa meðal annars snúið að staðsetningu færanlegra höfuðstöðva Rússa í Úkraínu.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.

Helstu vendingar:

  • Vladimír Pútín, forseti Rússlands, bað Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, afsökunar í dag. Það var vegna ummæla Sergeis Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í viðtali í daginn þar sem hann líkti Vólódímir Selenskí, forseta Úkraínu, við Hitler og sagði að Hitler hefði verið með „gyðingablóð“.
  • Harðir bardagar geysa enn í Azovstal-verksmiðjunni í Maríupól þar sem Rússar eru sagðir reyna að sigra síðustu verjendur borgarinnar og ná fullum tökum á henni.
  • Svíar segjast hafa fengið loforð frá Bandaríkjamönnum þess efnis að öryggi landsins verði tryggt ef Svíar ákveða að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu.
  • Samkvæmt frétt New York Times um aðstoð Bandaríkjanna til handa Úkraínumönnum telja síðarnefndu sig hafa náð að drepa tólf rússneska hershöfðingja.
  • Yfirvöld í Úkraínu segja Rússa enn einu sinni hafa svikið loforð um vopnahlé við Azovstal-verksmiðjuna í Maríupól. Rússar höfðu sagst myndu opna „mannúðarhlið“ frá verksmiðjunni í þrjá daga, frá og með deginum í dag en Úkraínumenn segja árásir enn standa yfir.
  • Í gær tókst að bjarga 344 frá verksmiðjunni.
  • Úkraínumenn segja Rússa hafa í hyggju að efna til herskrúðgöngu í Maríupól 9. maí næstkomandi, þegar þeir fagna „sigurdeginum“; deginum þegar sigur vannst á nasistum í seinni heimstyrjöldinni.
  • Joe Biden Bandaríkjaforseti mun ræða við aðra leiðtoga G7-ríkjanna í vikunni um enn frekari refsiaðerðir gegn Rússum.

Hér má finna vakt gærdagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×