Erlent

Vaktin: Rússar sóttu ekkert fram í dag

Hólmfríður Gísladóttir, Tryggvi Páll Tryggvason og Samúel Karl Ólason skrifa
Lík rússnesks hermanns nærri braki þyrlu sem skotin var niður nærri Makariv í norðurhluta Úkraínu.
Lík rússnesks hermanns nærri braki þyrlu sem skotin var niður nærri Makariv í norðurhluta Úkraínu. Getty/Wolfgang Schwan

Um hundrað almennum borgurum var bjargað frá Azovstal-verksmiðjunni í Maríupól í gær. „Tveir mánuðir af myrkri. Þegar við vorum komin í rútuna sagði ég við eiginmann minn: „Vasya, þurfum við ekki lengur að nota vasaljós til að fara á klósettið?“ segir ein þeirra sem var bjargað.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.

Helstu vendingar:

  • Rússar virðiast ekki hafa reynt að sækja fram á neinni víglínu í Úkraínu í dag. Úkraínumenn eru hins vegar sagðir hafa gert vel heppnaðar gagnárásir í bæði norðri og suðri.
  • Bandaríkjamenn segjast hafa ábyrgar heimildir fyrir því að Rússar ætli sér að reyna að innlima Donetsk og Luhansk um miðjan maí. Einnig standi til að reyna að innlima Kherson-hérað í suðurhluta Úkraínu.
  • Brottflutningur þeirra borgara sem hafst hafa við í stálverksmiðju í Maríupol gengur hægt. Þau sem hafa verið fluttir á brott þaðan eru afar fegin að vera laus úr byrginu.
  • Oleg Y. Tinkov, stofnandi eins stærsta banka Rússlands, segir líf sitt í hættu eftir að hann gagnrýndi innrás Rússa í Úkraínu í febrúar. Tinkov, sem var þá metinn á 9 milljarða dollara, vill ekki gefa upp hvar hann dvelur en segist hafa verið tilneyddur til að selja hlut sinn í Tinkoff eftir að stjórnvöld í Moskvu hótuðu að þjóðnýta bankann í kjölfar gagnrýninnar.
  • Breska varnarmálaráðuneytið segir fjórðung þeirra 120 hersveita sem Rússar sendu til Úkraínu nú óbardagahæfar. Rússar hefðu sent um það bil 65 prósent landhersins til að taka þátt í innrásinni og það muni taka mörg ár að endurnýja liðsaflann.
  • Evrópusambandið er að skoða að hætta olíuviðskiptum við Rússa fyrir árslok.
  • Yfirhershöfðinginn Valery Gerasimov er sagður hafa heimsótt framlínu Rússa í austurhluta Úkraínu í gær. Fregnir herma að skömmu eftir að hann yfirgaf svæðið hafi Úkraínumenn gert árás á skóla í Izium, sem Rússar voru að nota sem bækistöð.
  • Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, mun funda með Andrzej Duda, forseta Póllands, í dag. Pelosi heimsótti Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta í Kænugarði í gær. Adam Schiff, formaður leyniþjónustunefndar neðri deildar Bandaríkjaþings, segir aðeins tímaspursmál hvenær Joe Biden Bandaríkjaforseti ferðast til Úkraínu.
  • Selenskí segir árásir Rússa á íbúðahverfi og vöruhús þar sem matvæli eru geymd sönnun þess að stríði snúist um útrýmingu Úkraínumanna. 
  • Rússar segjast hafa ráðist á flugvöll nærri Odesu á laugardag. Þar hafi þeir eyðilagt flugbraut og flugskýli þar sem Úkraínumenn geymdu vopn frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Vakt gærdagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×