Íslenski boltinn

KR hefur tapað fyrsta heimaleik sumarsins undanfarin þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason og félagar í KR-liðinu eru stigalausir í fyrsta heimaleik undanfarin þrjú sumur.
Pálmi Rafn Pálmason og félagar í KR-liðinu eru stigalausir í fyrsta heimaleik undanfarin þrjú sumur. Vísir/Vilhelm

KR-ingum gengur illa að byrja knattspyrnusumur vel á heimavelli sínum og það varð ekki breyting á því í gærkvöldi.

KR-liðið hafði unnið 4-1 sigur á Fram í fyrstu umferðinni en sá leikur fór fram í Safamýrinni. KR tapaði aftur á móti 1-0 á móti Breiðabliki í gær.

Uppskeran úr fyrsta heimaleik ársins undanfari þrjú sumur eru því núll stig og eitt mark á móti sjö.

Það hefur hins vegar boðað mjög gott að vinna fyrsta heimaleikinn. Í tvö síðustu skiptin sem KR-ingar hafa gert það, 2013 og 2019, þá hafa þeir orðið Íslandsmeistarar.

Það stefndi reyndar lengi í heimasigur því KR-ingar óðu í færum í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora.

Blikar skoruðu síðan í upphafi seinni hálfleiks, héldu síðan út allan leikinn og fóru heim í Kópavog með öll þrjú stigin.

KR-ingar gera þó vonandi, þeirra vegna, betur í næsta heimaleik því ekki vilja þeir byrja tímabilið eins og í fyrra þegar uppskeran var aðeins eitt stig út úr fyrstu þremur heimaleikjunum.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir slakt gengi Vesturbæinga í fyrsta heimaleik sumarsins undanfarin áratug.

  • Fyrsti heimaleikur KR-liðsins undanfarin tíu ár:
  • 2022: 0-1 tap á móti Breiðabliki
  • 2021: 1-3 tap á móti KA
  • 2020: 0-3 tap á móti HK
  • 2019: 3-0 sigur á ÍBV [KR VARÐ ÍSLANDSMEISTARI]
  • 2018: 1-1 jafntefli við Breiðablik
  • 2017: 1-2 tap á móti Vikingi
  • 2016: 0-0 jafntefli á móti Víkingi
  • 2015: 1-3 tap á móti FH
  • 2014: 1-2 tap á móti Val (fór fram á gervigrasinu í Laugardal)
  • 2013: 2-1 sigur á Stjörnunni [KR VARÐ ÍSLANDSMEISTARI]



Fleiri fréttir

Sjá meira


×