Íslenski boltinn

Fimmta sumarið í röð þar sem Stjörnu­strákur skorar fyrir á­tján ára af­mælið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn fagna hér einu marka sinna á Leiknisvellinum í gær.
Stjörnumenn fagna hér einu marka sinna á Leiknisvellinum í gær. Visir/Hulda Margrét

Ungir leikmenn fá tækifæri hjá Stjörnunni og þeir eru líka að nýta þau. Hinn sautján ára gamli Adolf Daði Birgisson opnaði markareikning sinn í efstu deild í gær.

Adolf Daði var í fyrsta sinn í byrjunarliði Stjörnunnar í Bestu deildinni í sumar og var búinn að búa til tvö mörk eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. Hann byrjaði á því að fiska vítaspyrnu á þriðju mínútu og skoraði síðan sjálfur nítján mínútum síðar.

Adolf Daði var aðeins sautján ára, tíu mánaða og 21 daga þegar hann mætti á Leiknisvöllinn í gær.

Adolf Daði varð með þessu marki sínu sjöundi leikmaðurinn í sögu Stjörnunnar í efstu deild sem nær að opna markareikning sinn fyrir átján ára afmælið.

Það var einmitt methafinn, Ísak Andri Sigurgeirsson, sem er yngsti markaskorari Stjörnunnar í efstu deild, sem lagði upp markið fyrir Adolf. Ísak Andri var aðeins sextán ára og rúmlega níu mánaða þegar hann opnaði markareikning sinn fyrir Stjörnuna.

Markið hjá Adolf Daða þýðir líka að þetta er fimmta árið í röð þar sem Stjörnustrákur skorar fyrir átján ára afmælið sitt.

Sölvi Snær Guðbjargarson náði því bæði sumrin 2018 og 2019, Ísak Andri setti metið sumarið 2020 og Eggert Aron Guðmundsson var bara sautján ára og fjögurra mánaða þegar hann skoraði í fyrra.

  • Yngstu Stjörnumenn til að skora í úrvalsdeild karla:
  • 16 ára, 9 mánaða og 4 daga Ísak Andri Sigurgeirsson á móti Fylki 2020
  • 17 ára, 1 mánaða og 19 daga Rúnar Páll Sigmundsson á móti Víkingi 1991
  • 17 ára, 1 mánaða og 25 daga Sölvi Snær Guðbjargarson á móti KA 2018
  • 17 ára, 3 mánaða og 18 daga Ásgeir G. Ásgeirsson á móti Skallagrími 1997
  • 17 ára, 4 mánaða og 20 daga Eggert Aron Guðmundsson á móti KR 2021
  • 17 ára, 7 mánaða og 2 daga Kristinn Ingi Lárusson á móti Val 1991
  • 17 ára, 10 mánaða og 21 daga Adolf Daði Birgisson á móti Leikni 2022
  • 17 ára, 10 mánaða og 29 daga Sölvi Snær Guðbjargarson á móti Fylki 2019
  • 18 ára og 20 daga Ólafur Karl Finsen á móti KR 2010



Fleiri fréttir

Sjá meira


×