Enski boltinn

Miðju­maðurinn eftir­sótti neitar að skrifa undir nýjan samning

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Declan Rice er talinn vilja komast frá West Ham.
Declan Rice er talinn vilja komast frá West Ham. EPA-EFE/Peter Powell

Declan Rice, miðjumaður enska fótboltaliðsins West Ham United og enska landsliðsins, neitar að skrifa undir nýjan samning við félagið. Alls hefur hann hafnað þremur samningstilboðum félagsins. Ýtir það undir þær vangaveltur að hann gæti verið á förum frá félaginu

Hinn 23 ára gamli Rice er einkar eftirsóttur og hefur helst verið orðaður við Manchester United. David Moyes, þjálfari West Ham, hefur sagt að leikmaðurinn sé falur fyrir rúmlega 100 milljónir punda og vill augljóslega halda Rice í röðum Hamranna enda einn besti leikmaður liðsins og með betri miðjumönnum ensku úrvalsdeildarinnar.

Rice er samningsbundinn West Ham til sumarsins 2024 en það virðist þó stefna í að Rice færi sig um set. Það er hins vegar ákvæði í samningnum sem leyfir West Ham að framlengja samninginn um ár en það er spurning hvort félagið vilji hafa leikmann í sínum röðum sem vill ólmur komast annað.

Fjölmiðlar í Bretlandi segja að Rice hafi nú hafnað þremur tilboðum frá West Ham. Það síðasta hefði gert hann að launahæsta leikmanni í sögu félagsins. Hljóðaði tilboðið upp á 200 þúsund pund á viku.

Ásamt Man United er talið að Chelsea – uppeldisfélag Rice – hafi áhuga á þessum enska landsliðsmannin sem þó lék með öllum yngri landsliðum Írlands áður en hann ákvað að A-landsliðsferill með Englandi væri skemmtilegri.

West Ham er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 52 stig, tveimur stigum minna en Man United og tíu stigum minna en Chelsea sem á þó tvo leiki til góða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.