Enski boltinn

Fullyrðir að Ten Hag sé að taka við United

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ef marka má Fabrizio Romano er Erik ten Hag hársbreidd frá því að ganga frá samningum við Manchester United.
Ef marka má Fabrizio Romano er Erik ten Hag hársbreidd frá því að ganga frá samningum við Manchester United. ANP via Getty Images

Félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano fullyrðir að Hollendingurinn Erik ten Hag sé í þann mund að ganga frá samningum við enska knattspyrnufélagið Manchester United.

Stjórinn hefur verið orðaður við stöðuna seinustu mánuði, en lengi vel leit út fyrir að valið stæði á milli hans og Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra Paris Saint-Germain.

Romano birti færslu á Twitter-síðu sinni fyrr í dag þar sem hann fullyrðir að nú eigi í raun aðeins eftir að ganga frá lausum endum í samningsmálum, sem og að United og Ajax eigi eftir að sammælast um klásúlu sem leyfir Ten Hag að yfirgefa síðarnefnda félagið. Romano lét sitt fræga slagorð, „Here we go,“ fylgja með, en það þýðir yfirleitt að hann hafi mjög öruggar heimildir á bakvið það sem hann segir.

Ten Hag hefur verið stjóri Ajax frá árinu 2017 og undir hans stjórn hefur liðið orðið hollenskur meitari í tvígang. Þá hefur liðið einnig tvisvar unnið hollenska bikarinn undir hans stjórn og komist í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×