Íslenski boltinn

Ástralskur fram­herji til liðs við Breiða­blik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásmundur Arnarsson og nýjasta viðbótin við leikmannahóp Breiðabliks.
Ásmundur Arnarsson og nýjasta viðbótin við leikmannahóp Breiðabliks. Blikar.is

Bikarmeistarar Breiðabliks hafa samið við ástralska framherjann Melinu Ayers um að leika með liðinu í Bestu-deild kvenna í fótbolta í sumar. Kemur hún á láni frá Melbourne Victory í heimalandinu.

Blikar enduðu í 2. sæti á síðustu leiktíð en urðu bikarmeistarar ásamt því að taka þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu síðan síðasta haust og nú hefur verið ákveðið að styrkja framlínuna enn frekar.

Á vefnum Blikar.is kemur fram að liðið hafi fengið hina 22 ára gömlu Ayers á láni út tímabilið. Hún kemur frá ástralska meistaraliðinu Melbourne Victory. Alls skoraði Ayers átta mörk í 14 leikjum á nýafstaðinni leiktíð en hún byrjaði tímabilið á meiðslalistanum.

Hún endaði tímabilið hins vegar frábærlega og átti stóran þátt í að Melbourne landaði meistaratitlinum annað árið í röð.

Ayers á að baki sex leiki fyrir U-20 ára landslið Ástralíu, skoraði hún þrjú mörk í leikjunum sex.

Svo virðist sem lið hér á landi sækist í sífellt meiri mæli eftir leikmönnum frá hinum enda hnattarins en nýverið sömdu nýliðar KR við tvær frá Ástralíu og í Bestu deild karla sótti Fram einnig leikmann til Ástralíu.

Breiðablik byrjar Bestu-deildina á Kópavogsvelli þann 27. apríl næstkomandi þegar Þór/KA kemur í heimsókn.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.