Erlent

Minnst tíu skotnir og 29 fluttir á sjúkrahús

Eiður Þór Árnason skrifar
Margir farþegar lágu í sárum sínum á lestarpöllum eftir að árásarmaðurinn flúði vettvang. 
Margir farþegar lágu í sárum sínum á lestarpöllum eftir að árásarmaðurinn flúði vettvang.  AP/Will B Wylde

Minnst 29 voru fluttir á sjúkrahús í dag eftir að maður með gasgrímu henti reyksprengju inn í neðanjarðarlest á háannatíma í Brooklyn í New York og hóf skothríð.

Talið er að hann hafi hæft minnst tíu farþega. Fimm eru sagðir vera í alvarlegu ástandi en þó ekki í lífshættu. Óttaslegnir farþegar sáust reyna að flýja að lestina þegar atvikið hófst og féllu sumir máttlausir út úr lestarvögnum. Að sögn AP-fréttaveitunnar leið yfir minnst einn á lestarpallinum fyrir utan.

Tilkynning barst til lögreglu klukkan 8:30 í morgun að staðartíma um að skothvellir eða sprengingar hafi heyrst á lestarstöðinni á 36 stræti í Sunset Park hverfi, um fimmtán mínútum frá Manhattan. Þegar lögregla og slökkvilið mætti á staðinn var stöðin uppfull af reyk og var fyrst talið að sprengja hafi sprungið á stöðinni.

„Þegar dyrnar á lestarvagninum mínum opnuðust tóku hörmungar við. Það var reykur og blóð og öskrandi fólk,“ sagði sjónarvotturinn Sam Carcamo. Reykur steig upp frá vagninum þegar dyrnar opnuðu, bætti hann við.

Ekki rannsakað sem hryðjuverk

Lögregla hóf strax leit að árásarmanninum og fann síðar sendiferðabíl sem talið er mögulega tengist árásinni. Lögregluyfirvöld segja að atvikið sé ekki rannsakað sem hryðjuverk en að ekkert sé útilokað í þeim efnum. Ekki sé vitað hvað árásarmanninum gekk til.

Lögregla fann skammbyssu og reyksprengjur á vettvangi auk kreditkorts í eigu einstakling sem talinn er tengjast árásinni. Kortið var meðal annars notað til að leigja áðurnefndan sendiferðabíl sem lögregla fann í Brooklyn.

Talið er að árásarmaðurinn hafi haft minnst tvö auka skothylki meðferðis en að skotvopnið hafi stíflast og komið í veg fyrir að hann gæti haldið skothríðinni sinni áfram.


Tengdar fréttir

Minnst fimm særðust í skot­á­rás í Brook­lyn

Minnst fimm særðust í skotárás í neðanjarðarlest í Brooklyn í New York í morgun. Lögreglan leitar enn árásarmannsins, sem talinn er klæddur í appelsínugult endurskinsvesti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×