Erlent

Telja að eitrað hafi verið fyrir Abramovich og erindrekum Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Auðjöfurinn Roman Abramovich hefur komið að friðarviðræðum milli Úkraínu og Rússlands.
Auðjöfurinn Roman Abramovich hefur komið að friðarviðræðum milli Úkraínu og Rússlands. Getty/Mikhail Svetlov

Þrír meðlimir sendinefndar Úkraínumanna í friðarviðræðum Úkraínu og Rússlands, auk Romans Abramovich, rússnesks auðjöfurs og eiganda Chelsea FC, eru taldir hafa verið fórnarlamb eitrunar fyrr í þessum mánuði. Abramovich er hefur komið að friðarviðræðunum fyrir hönd Úkraínumanna.

Í frétt Wall Street Journal (áskriftarvefur) segir að allir mennirnir hafi sýnt einkenni sem séu í samræmi að eitrað hafi verið fyrir þeim en óvíst er hvort það hafi verið gert með efnavopni eða öðrum aðferðum.

Þá hafa forsvarsmenn rannsóknarsamtakanna Bellingcat eftir sérfræðingum í eitrunum að hinni meintu eiturefnaárás á Abramovich og meðlimi sendinefndar Úkraínu hafi líklega ekki verið ætlað bana þeim. Líklega hafi markmiðið verið að hræða þá en mennirnir telja að harðlínumenn í Moskvu hafi eitrað fyrir þeim, án þess þó að vita hverjir.

Mennirnir eru sagðir hafa fundið verulega til í augum og húð þeirra á höndum og andliti flagnaði af. Abramovich missti sjón í nokkrar klukkustundir eftir eitrunina, samkvæmt Guardian, og var færður á sjúkrahús í Tyrklandi.

Þeir eru þó allir sagðir hafa jafnað sig.

Meðlimur sendinefndarinnar skotinn til bana degi eftir eitrunina

Degi eftir að hin meinta eitrun gegn Roman Abramovich og þremur meðlimum sendinefndar Úkraínu í friðarviðræðum við Rússa var framin, var annar meðlimur sendinefndarinnar skotinn til bana af leyniþjónustu Úkraínu.

Þetta var þann 5. mars og var sagt frá því í vakt Vísis þann daginn að fjölmiðlar í Rússlandi sögðu Denis Kireyev hafa verið handtekinn fyrir landráð og tekinn af lífi án dóms og laga.

Úkraínumenn sögðu hins vegar að hann hefði verið skotinn til bana við handtöku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×