Erlent

Af­gönskum konum bannað að fljúga án fylgdar karl­manna

Eiður Þór Árnason skrifar
Talibanar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir nýju takmarkanirnar.
Talibanar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir nýju takmarkanirnar. Getty/Anadolu Agency

Stjórn Talibana hefur tilkynnt flugfélögum í Afganistan að konur megi ekki fara um borð í flugvélar nema í fylgd með karlkyns ættingja. Bannið á bæði við um innanlands- og millilandaflug.

Fréttastofan Reuters hefur þetta eftir tveimur ónafngreindum heimildarmönnum en nýju takmarkanirnar voru síðar staðfestar af flugmálayfirvöldum í Afganistan.

Tilkynningin kemur skömmu eftir að Talibanar gengu á bak loforða sinna um að opna miðskóla fyrir stúlkur á ný. Sú ákvörðun hefur meðal annars verið fordæmd af mannúðarsamtökum og erlendum valdhöfum en skólarnir höfðu verið lokaðir frá því að Talibanar náðu völdum í ágúst í fyrra. Skólunum var skyndilega lokað á miðvikudag einungis nokkrum klukkustundum eftir að skólastarf hófst þar að nýju.

Bandaríkjamenn afbókuðu á föstudag fyrirhugaðan fund með afgönskum ráðamönnum um efnahagsmál vegna lokunar skólanna.

Vísað frá á flugvellinum

Heimildarmenn Reuters, sem voru ekki nafngreindir af öryggisástæðum, segja að stjórnvöld hafi sent bréf til flugfélaga á laugardag þar sem þau voru upplýst um nýju takmarkanirnar. Reuters hefur eftir heimildarmönnunum að konur sem hafi verið búnar að bóka flugmiða yrði leyft að ferðast á sunnudag og mánudag. Þrátt fyrir það hafi einhverjum konum með farmiða verið vísað frá á alþjóðaflugvellinum í Kabúl á laugardag.

Talsmaður Talibanastjórnarinnar hafði áður sagt að konur sem færu erlendis vegna náms ættu að vera í fylgd karlkyns ættingja.

Óljóst er á þessu stigi máls hvort undantekningar séu frá nýju takmörkunum, vegna neyðartilvika eða í tilfelli kvenna sem eiga enga karlkyns ættingja í landinu. Sömuleiðis er óljóst hvort bannið nái til kvenna með tvöfaldan ríkisborgararétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×