Erlent

Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herrann hand­tekinn

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 62 ára Boyko Borissov gegndi embætti forsætisráðherra í Búlgaríu á árunum 2009 til 2013 og aftur frá 2014 til 2021.
Hinn 62 ára Boyko Borissov gegndi embætti forsætisráðherra í Búlgaríu á árunum 2009 til 2013 og aftur frá 2014 til 2021. EPA

Lögregla í Búlgaríu handtók í gær forsætisráðherrann fyrrverandi, Boyko Borissov, í tengslum við rannsókn á fjármálamisferli. Rannsóknin snýr að því hvort að styrkir frá Evrópusambandinu hafi verið misnotaðir.

DW segir frá því að lögregla í Búlgaríu hafi handtekið fjölda manns í tengslum við rannsóknina sem snýr að 120 færslum sem tengjast styrkjum frá ESB til Búlgaríu.

Borissov var handtekinn í gær en rannsóknin er á vegum skrifstofu saksóknara Evrópusambandsins í Búlgaríu. Í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Búlgaríu segir að Borisov verði í varðhaldi í sólarhring, en ekkert er þar gefið upp um mögulega ákæru.

Saksóknarar hafa verið að rannsaka misnotkun á styrkjum ESB til Búlgaríu á sviði landbúnaðar og innviðauppbyggingar og vegna kórónuveirufaraldursins.

Forsætisráðherrann Kiril Petkov sagði í færslu á Facebook-síðu sinni að enginn væri hafinn yfir lög, eftir að fréttir bárust af handtökunni.

Petkov myndaði ríkisstjórn í kjölfar sigurs í þingkosningunum í Búlgaríu í nóvember síðastliðinn, en í kosningabaráttunni hét hann því að berjast hart gegn spillingu í landinu.

Hinn 62 ára Borissov gegndi embætti forsætisráðherra í Búlgaríu á árunum 2009 til 2013 og aftur frá 2014 til 2021. Áður hafði hann gegnt embætti borgarstjóra höfuðborgarinnar Sofiu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×