Innlent

Komu erlendum ferðamanni á fjallaskíðum til bjargar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá aðgerðum í dag.
Frá aðgerðum í dag. Lögreglan á Norðurlandi eystra

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á þriðja tímanum í dag vegna erlends ferðamanns á fjallaskíðum í nágrenni Ólafsfjarðar. Tilkynnt hafði verið um skíðamanninn um hádegisbil en sá hafði farið upp frá Vermundarstöðum skammt frá Ólafsfirði og ekki skilað sér niður á áætluðum tíma.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að tilkynnt hafi borist Neyðarlínu og viðbragðsaðilar í framhaldinu ræstir út. Björgunarsveitir hófu strax leit á svæðinu og var aðgerðarstjórn á Akureyri virkjuð.

Um klukkan 14:30 tilkynnti björgunarsveit að maðurinn væri fundinn ofarlega í fjalllendi. Beðið var um útkall á þyrlu landhelgisgæslunnar sem var send á vettvang.

Maðurinn var hífður upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar og fluttur á sjúkrahús. Björgunarsveitir á svæði 11 ásamt sjúkraflutningsmönnum og lögreglu tóku þátt í leitinni. Aðstæður á vettvangi voru erfiðar en mjög bratt er á svæðinu þar sem að maðurinn fannst. Að sögn lögreglu voru veðurskilyrði góð og gekk vel að koma manninum upp í þyrluna. 

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum upplýsingum frá lögreglu. 


Tengdar fréttir

Ferða­maðurinn fundinn heill á húfi

Ferðamaðurinn sem leitað var á Mælifellssandi við Fjallabak er fundinn heill á húfi. Að sögn Landsbjargar var hann orðinn nokkuð kaldur og hrakinn en heilsast að öðru leyti vel.

Rúta með 40 farþegum lenti utan vegar í Þrengslunum

Björgunarsveitir voru kallaðar út skömmu fyrir hádegi vegna rútu sem hafnaði utan vegar í Þrengslunum en um borð voru 40 farþegar sem þurfti að aðstoða. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi slysavarnafélagsins Landsbjargar segir auk þess að björgunarsveitarfólk hafi þurft að aðstoða ökumenn fleiri ökutækja á svæðinu.

Ferðamennirnir á leið af Vatnajökli til Reykjavíkur

Ferðamennirnir sem leitað var að á Sylgjujökli í vestanverðum Vatnajökli eru komnir um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar heilir á húfi. Hjálparbeiðni barst frá fólkinu um miðjan dag, það hafði fallið í vatn og blotnað og var orðið mjög kalt. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×