Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu hefur eftir heimildarmönnum sínum úr her ríkisins að eldflaugin hafi ekki náð tuttugu kílómetra hæð áður en hún sprakk í loft upp.
Ríkisstjórn Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafði áður gert minnst tvær aðrar tilraunir á undanförnum dögum og sagt að ríkið sé að reyna að koma gervihnetti á loft. Fáir virðast þó trúa því en Kim hefur um margra ára skeið unnið að þróun kjarnorkuvopna og eldflauga til að bera þau vopn til Bandaríkjanna og annarra ríkja.
Talið er að eldflaugin hafi verið að gerðinni Hwasong-17, sem opinberuð var árið 2020. Hún er mjög stór og er talin geta borið nokkra kjarnaodda lengra en þrettán þúsund kílómetra frá Norður-Kóreu.
Fyrir tilraunaskot með Hwasong-17 þann 24. febrúar hafði Norður-Kórea ekki gert tilraunir með svo langdrægar eldflaugar frá 2017. Ráðamenn í Bandaríkjunum lögðu fyrir nokkrum árum mikið púður í viðræður til að reyna að fá Kóreumenn til að hætta vopnaþróun en þær viðræður fóru út um þúfur árið 2019.
Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, hefur boðið Kim viðræður á nýjan leik en því hefur Kim neitað og vill hann losna við einhverjar refsiaðgerðir áður.