Erlent

Eld­flauga­skot Norður-Kóreu það stærsta síðan 2017

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ferðamenn fylgjast með eldflaugaskotinu á lestarstöðinni í Seoul í S-Kóreu.
Ferðamenn fylgjast með eldflaugaskotinu á lestarstöðinni í Seoul í S-Kóreu. Vísir/AP

Norður-Kóreumenn halda áfram eldflaugatilraunum og skutu í gær stærsta eldflaugaskoti sínu síðan 2017. Skotið er það sjöunda í þessum mánuði.

Eldflaugaskotið er hluti af tilraunum Norður-Kóreumanna og var um að ræða millidræga eldflaug sem lenti á Japanshafi. Suður-Kórea, Japan og Bandaríkin hafa öll fordæmt skotið.

Eldflauginni var skotið í gærkvöldi á íslenskum tíma. Áætlað er að hún hafi mest náð 2000 kílómetra hæð, verið á lofti í hálfa klukkustund og á þeim tíma flogið alls 800 kílómetra. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa bannað tilraunir Norður-Kóreu með kjarnavopn og hafa lagt á umfangsmikið viðskiptabann á Kim Jong-un og landa hans. Þetta hefur þó ekki stoppað leiðtoga Norður-Kóreu í áðurnefndum æfingum og hefur hann heitið því að styrkja varnir landsins.

Þetta er í sjöunda sinn í janúarmánuði sem Norður-Kóreumenn skjóta eldflaug á loft og Bandaríkjamenn hertu viðskiptabannið í upphafi mánaðarins en viðræður milli landanna hafa tafist.

Tímasetning eldflaugaskotsins vekur athygli nú þegar stutt er í að Vetrarólympíuleikarnir hefjast í Peking í Kína og þá eru forsetakosningar í Suður-Kóreu á dagskrá í mars. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×