Enski boltinn

Chelsea gæti misst aðalstyrktaraðilann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Three, aðalstyrktaraðili Chelsea, gæti stokkið frá borði eftir refsiaðgerðir ríkisstjórnar Bretlands gegn Roman Abramovich, eiganda félagsins.
Three, aðalstyrktaraðili Chelsea, gæti stokkið frá borði eftir refsiaðgerðir ríkisstjórnar Bretlands gegn Roman Abramovich, eiganda félagsins. getty/Francois Nel

Aðalstyrktaraðili Chelsea, fjarskiptafyrirtækið Three, ætlar að endurskoða samstarf sitt við félagið eftir að eignir eiganda þess, Romans Abramovich, voru frystar.

Three hefur verið aðalstyrktaraðili Chelsea frá sumrinu 2020. Auglýsing frá fyrirtækinu er framan á treyju Chelsea. Talið er að samningur Three og Chelsea sé fjörutíu milljóna punda virði.

Í morgun var greint frá því að breska ríkisstjórnin hefði beitt sjö rússneska olígarka refsiaðgerðum. Meðal þeirra var að frysta eignir Abramovich. Það setur áætlanir hans um að selja félagið í uppnám. 

Þessar aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar gætu haft mikil áhrif á Chelsea og félagið gæti misst stóra styrktaraðila. Three staðfesti við The Times að fyrirtækið ætlaði að endurskoða samstarf sitt við Chelsea. Líklegt er að fleiri styrktaraðilar fari sömu leið. 

Meðal annarra stórra styrktaraðila Chelsea má nefna Nike, Hyundai og Hublot. Á síðasta ári hagnaðist Chelsea um 154 milljónir punda vegna styrktarsamninga, þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Abramovich má ekki lengur hagnast neitt á því að eiga Chelsea. Félagið má því ekki selja fleiri miða á leiki í vetur og heldur ekki selja varning merktan félaginu. Þá má Chelsea ekki kaupa leikmenn né gera nýja samninga við þá sem fyrir eru hjá félaginu. Chelsea fékk hins vegar leyfi til að halda daglegri starfsemi sinni áfram og leikmenn og starfsfólk félagsins fá áfram greidd laun.

Breskir fjölmiðlar greina frá því að Chelsea gæti verið selt svo lengi sem Abramovich hagnist ekkert á sölunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×