Erlent

Flugbann ekki í kortunum hjá NATO

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Getty/Leon Neal

Leiðtogar Atlantshafsbandalagins ætla ekki að setja á flugbann yfir Úkraínu. Þetta tilkynnti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, nú fyrir skömmu en málið var til umræðu eftir ítrekuð áköll ráðamanna í Úkraínu.

Stoltenberg sagði að bandalagið myndi gera það sem þyrfti til að verja landamæri aðildarríkja. Bandalagið sæktist ekki eftir stríði við Rússa.

Hann sagði einnig að útlit væri fyrir að ástandið í Úkraínu myndi versna enn frekar á næstu dögum. Dauðsföllum myndi fjölga og eyðileggingin yrði verri. Þá væru Rússar að flytja fleiri og stærri vopn til að gera árásir í Úkraínu.

Stoltenberg kallaði innrásina „stríð Pútíns“. Það hefði verið hann sem skipulagði innrásina og hann sem ætti í stríði við friðsama þjóð.

Þá væri mikilvægt að taka fram að sögn Stoltenbergs að NAto ætlaði ekki í stríð. NATO væri varnarbandalag og markmið þess að halda bandalagsríkjunum þrjátíu öruggum.

„Við erum ekki hluti af þessum átökum og ábyrgð okkar er að tryggja að stríðið breiðist ekki út fyrir landamæri Úkraínu. Það yrði enn hræðilegra og enn hættulegra og enn fleiri myndu líða fyrir það,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundinum. 

Fjöldi ríkja hefur undan farna viku lokað loftrými sínu fyrir flugumferð Rússa, þar á meðal Ísland. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×