Erlent

Tár­vot þrumu­ræða úkraínskrar blaða­konu vekur heims­at­hygli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Boris Johnson gat lítið annað gert en að hlusta.
Boris Johnson gat lítið annað gert en að hlusta. Richard Pohle-Pool/Getty Images

Daria Kaleniuk, úkraínskur blaðamaður, grátbað Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um aukna aðstoð til að berjast gegn innrás Rússa í Úkraínu á blaðamannafundi í dag. Myndband af þrumuræðu hennar hefur vakið heimsathygli.

Johnson hélt blaðamannafund í Póllandi í dag en þangað hafði Kaleniuk flúið frá Úkraínu vegna innrásar Rússa.

Á blaðamannafundinum hélt hún tilfinningaþrungna ræðu þar sem hún grátbað Johnson um að sjá til þess að vestræn ríki gerðu meira en þau væru þegar að gera til að stemma stigu við yfirgangi Rússa.

„Þú kemur til Póllands, þú kemur ekki til Kiev, forsætisráðherra. Þú kemur ekki til Lviv,“ sagði Kaleniuk í kraftmikilli ræðu sem vakið hefur mikla athygli.

Gagnrýndi hún Johnson og aðra leiðtoga fyrir að styðja Úkraínu óbeint, í stað þess að stíga niður með meiri krafti gegn Rússum.

„Það er vegna þessar þú ert hræddur. Vegna þess að NATO vill ekki verjast. Vegna þess að NATO óttast þriðju heimsstyrjöldina. En hún er þegar hafin,“ sagði Kaleniuk.

Gagnrýndi hún Johnson harðlega fyrir að taka ekki harðar á rússneskum auðkýfingum í Bretlandi.

„Þú talar um meiri efnahagsþvinganir en af hverju er ekkert gert gegn Roman Abramovich. Hann er í London. Börnin hans eru ekki í sprengjuskýlum. Börnin hans eru í London. Börnin hans Pútín eru í Hollandi. Í Þýskalandi. Í höllum.“

„Fjölskyldan mín, samstarfsfélagar mínir segja við mig að þeir séu grátandi, þeir vita ekki hvert þeir eiga að fara. Það er það sem er að gerast, forsætisráðherra,“ sagði Kaleniuk með tárin í augunum sem krafðist þess að flugbanni yrði komið á yfir Úkraínu svo Rússar gætu ekki gert loftárásir.

Johnson þakkaði Kaleniuk fyrir að hafa komið á blaðamannafundinn. Hann gat þó lítið gert til þess að koma til móts við hana. Hann var þó hreinskilinn með það að Bretland gæti ekki gert mikið meira en það væri þegar að gera.

„Því miður yrði áhrifin af flugbanni þau að þá yrði Bretland að taka þátt í því að skjóta niður rússneskar flugvélar. Við myndum enda í beinum átökum við Rússa. Það er ekki eitthvað sem við getum gert eða við sjáum fyrir okkur að gera,“ sagði Johnson og bætti við afleiðingar af slíku flugbanni gætu orðið geigvænlegar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×