Innlent

Búa þurfi sam­fé­lög undir ó­um­flýjan­legar breytingar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Screenshot 2022-02-28 at 18.30.49
Veðurviðvaranir hafa verið tíðar að undanförnu hér á landi.

Nauðsynlegt er að grípa til aðlögunaraðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga á samfélög. Þetta segir doktor í veður- og haffræðum. Allar líkur eru á því að meira verði um aftakaveður hér á landi.

Gular, appelsínugular og rauðar veðurviðvaranir hafa einkennt þetta ár. Fréttir af mjög slæmu veðri hafa verið tíðar og eru allar líkur á því að meira verði um aftakaveður vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, sem hafa nú þegar haft óafturkræfar afleiðingar. 

Í nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem kom út í dag, kemur fram að nauðsynlegt sé að búa fólk undir breyttan heim og er fjallað um til hvaða úrræða megi grípa til að aðlagast loftslagsbreytingum.

Halldór Björnsson.

Með því er ekki átt við aðgerðir sem beinast að því að draga úr útblæstri heldur þær sem felast í því að búa samfélög undir óumflýjanlegar breytingar.

„Hluti af þessari áhættustýringu eru þessi viðbrögð. Að geta brugðist við. Vera þjóðfélag sem hafi þanþol fyrir loftslagsbreytingum eða loftslagsvarið á einhvern hátt,“ sagði Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands.

Til dæmis þurfi að grípa til aðgerða þegar kemur að matvælaöryggi.

„Þessi skýrsla fjallar meðal annars um hvað hægt sé að gera. Hvernig hægt er að vera með ræktun sem gerir marga hluti í einu það er að segja bæði bindur og auk þess gefur matvæli.“

Þá þurfi stjórnvöld að passa upp á skipulag.

„Það er líka sérstaklega fjallað um sjávarstöðuhækkun og hvernig þurfi að bregðast við henni og það er vandamál sem við þurfum líka að glíma við. Við þurfum að passa okkur að skipuleggja okkur ekki í vandræði.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×