Selenskíj greinir frá þessu á Telegram-rás sinni. Þar segir hann að hann hafi rætt við Lúkasjenka í síma og þeir ákveðið að úkraínsk sendinefnd muni hitta þá rússnesku án nokkurra skilyrða. Fundurinn verði á landamærum Úkraínu og Hvíta-Rússlands, nærri Pripyat ánni.
Á kortinu hér að neðan má sjá um það bil hvar fundurinn verður.
Selenskíj segir að Lúkasjenka hafi sagst ætla að tryggja að rússneskar hersveitir, herþotur, herþyrlur og flugskeytabyssur í Hvíta-Rússlandi muni vera kyrrstæðar á meðan á fundinum stendur.
Embætti úkraínska forsetans segir nú á Telegram að sendinefndirnar muni hittast á ótilgreindum stað á landamærum Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Nákvæm tímasetning fundarins verður ekki gefin upp.
Rússland tilkynnti það í morgun að sendinefnd þess væri komin til Hvíta-Rússlands og biði þess að fulltrúar Úkraínu kæmu til fundar þeirra. Úkraínsk yfirvöld höfnuðu boðinu fyrst um sinn, þegar svo virtist sem Rússar vildu að fundurinn færi fram í Hvíta-Rússlandi, en sögðust opin fyrir fundi einhvers staðar annars staðar en í Hvíta-Rússlandi en þar hafa rússneskar hersveitir haldið til um nokkurt skeið.