Erlent

Biden hyggist tilnefnda Ketanji Brown Jackson í hæstarétt

Eiður Þór Árnason skrifar
Ketanji Brown Jackson starfar nú við áfrýjunardómstól í Washington D.C.
Ketanji Brown Jackson starfar nú við áfrýjunardómstól í Washington D.C. Getty/Tom Williams

Joe Biden Bandaríkjaforseti hyggst tilnefna alríkisdómarann Ketanji Brown Jackson til að taka sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. The New York Times greinir frá þessu og hefur eftir ónefndum heimildarmönnum sem eru sagðir þekkja til málsins.

Ef tilnefningin verður staðfest í öldungadeild Bandaríkjaþings verður hin 51 árs Ketanji Brown Jackson fyrsta svarta konan til að verða skipuð í hæstarétt þar í landi.

Hún myndi þá taka sæti frjálslynda hæstaréttardómarans Stephen G. Breyer sem tilkynnti í síðasta mánuði að hann hygðist fara á eftirlaun við lok núverandi tímabils Hæstaréttar sem lýkur í sumar.

sögn New York Times naut Jackson nokkurs stuðnings Repúblikana þegar Biden tilnefndi hana seinasta sumar sem alríkisdómara við hinn áhrifamikla áfrýjunardómstól í Washington D.C.

Skipun hennar myndi ekki hafa áhrif á hugmyndafræðilega stöðu Hæstaréttar þar sem þrír frjálslyndir hæstaréttardómarar sitja nú við hlið sex dómara sem skipaðir voru af Repúblikönum. Það yrði þó í fyrsta sinn sem allir sitjandi hæstaréttardómarar skipaðir af Demókrötum yrðu konur.

Aðstoðaði Breyer

Jackson fæddist í Washington, D.C., ólst upp í Miami í Flórída og útskrifaðist frá lagadeild Harvard-háskóla, þaðan sem Breyer útskrifaðist sömuleiðis. Hún aðstoðaði dómarann jafnframt á árunum 1999 til 2000.

Tilnefning Jackson hefur tvisvar áður verið staðfest í öldungadeildinni. Á seinasta ári kusu þrír Repúblikanar með tilnefningu hennar í áfrýjunardómstólinn í Washington D.C. Það voru öldungadeildarþingmennirnir Susan Collins frá Maine, Lindsey Graham frá Suður-Karólínu og Lisa Murkowski frá Alaska. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×