Enski boltinn

„Algjör þvæla“ að Maguire og Ronaldo séu að rífast um fyrirliðabandið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ralf Rangnick segir það algjöra þvælu að Cristiano Ronaldo og Harry Maguire séu í einhvers konar valdabaráttu.
Ralf Rangnick segir það algjöra þvælu að Cristiano Ronaldo og Harry Maguire séu í einhvers konar valdabaráttu. Clive Rose/Getty Images

Ralf Rangnick, bráðabirgðarstjóri Manchester United, segir það algjöra þvælu að Harry Maguire og Cristiano Ronaldo eigi í einhvers konar valdabaráttu um stöðu fyrirliða félagsins.

Í vikunni birtist grein í Daily Mirror þar sem því er haldið fram að leikmennirnir tveir eigi í einhvers konar valdabaráttu sem valdi stjóranum hugarangri.

Maguire sá sig knúinn til að svara þessum sögusögnum á Twitter í dag og þá var Rangnick einnig spurður út í þetta mál á blaðamannafundi í dag.

Rangnick segir þó að hann láti þessar sögusagnir ekki fara í taugarnar á sér þar sem hann veit að þetta er ekki satt.

„Þetta er algjör þvæla,“ sagði Þjóðverjinn. „Ég hef aldrei rætt við leikenn um fyrirliðastöðuna.“

„Þetta hefur aldrei verið neitt vandamál hjá mér. Harry [Maguire] er fyrirliðinn okkar og hann verður fyrirliðinn okkar áfram.“

Maguire fékk fyrirliðabandið þegar Ole Gunnar Solskjær var við stjórnvölin hjá Manchester United, en undanfarið hafa nokkrir miðlar velt því fyrir sér hvort að koma Cristiano Ronaldo til liðsins hafi grafið undan leiðtogahlutverki varnarmannsinns.

Eins og áður segir lætur Ralf Rangnick þó þessar sögusagnir ekki á sig fá.

„Ég er ekki pirraður yfir þessu af því að ég veit að þetta er ekki satt. Ég hlusta ekki á svona hávaða af því að ég er upptekinn við að undirbúa liðið fyrir næsta leik.“

„Ég er alveg búinn að heyra um það sem hefur verið skrifað og já, það voru nokkrir leikmenn óánægðir í lok félagsskiptagluggans. En við höfum hreinsað loftið í búnungsklefanum og mórallinn í liðinu er mun betri en fyrir nokkrum vikum,“ sagði Rangnick að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×