Erlent

Slógu eigið met í kjarnasamruna frá 1997: „Við höfum sýnt fram á að við getum myndað litla stjörnu“

Samúel Karl Ólason skrifar
Kjarnasamrunaver JET sem notað var til að slá gamalt met stofnunarinnar frá 1997.
Kjarnasamrunaver JET sem notað var til að slá gamalt met stofnunarinnar frá 1997. JET

Vísindamenn á JET-rannsóknarstöðinni (Joint European Torus) tilkynntu í dag að þeir hefðu slegið nýtt met í kjarnasamruna. Við það slógu vísindamennirnir gamalt met JET frá 1997 með því að framleiða rúmlega tvöfalt meiri orku.

Í nýjustu tilraun vísindamanna JET tókst þeim að framleiða 59 megajúl af varmaorku með samruna yfir fimm sekúndna tímabil. Orkumyndun tilraunarinnar samsvaraði um ellefu megavöttum, eða ellefu megajúlum á sekúndu.

Það voru sömuleiðis vísindamenn JET sem áttu gamla metið en árið 1997 framleiddu vísindamenn stofnunarinnar 21,7 megajúl af varmaorku með kjarnasamruna eða um 16 megavött. Það þurfti þó 24 megavött til að koma samrunanum af stað.

Hér má sjá stutt myndband sem sýnir inn í kjarnasamrunaver JET.

Vísindamenn binda miklar vonir við að í framtíðinni megi skapa gífurlega orku með lítilli mengun og geislun. Það á að gera með kjarnasamruna sem gengur í einföldu máli út á það að endurskapa það ferli sem gerist í stjörnum alheimsins.

Léttir atómkjarnar eru látnir renna saman svo þeir mynda aðra þyngri kjarna en við losnar mikil orka úr læðingi. Við þetta ferli myndast gífurlega mikill hiti en hann er talinn vera um tíu sinnum hærri en hitinn í miðju sólarinnar.

Verið er að smíða stærsta kjarnasamrunaver heimsins í Frakklandi en þar verður samruni myndaður með því að ofurhita þungavetni og tritíum. Ofninn verður um 23 þúsund tonn að þyngd en einn rafsegull af þremur er sagður geta lyft heilu flugmóðurskipi.

35 þjóðir heims koma að verkefninu, sem ber heitið ITER, og hafa þúsundir vísindamanna og verkfræðinga unnið við það.

Nýjasti árangur vísindamanna JET markar góðar fregnir fyrir kjarnasamrunaverið í Frakklandi en í tilrauninni þar sem nýja metið var sett, var notast við sama ferli.

„Nýjar tilraunir JET hafa fært okkur skrefi nærri kjarnasamrunaorku,“ hefur BBC eftir Dr. Joe Milnes, sem stýrir aðgerðum á rannsóknarstofunni. „Við höfum sýnt fram á að við getum myndað litla stjörnu inn í vél okkar og haldið henni þar í fimm sekúndur með góðri virkni, sem færir okkur inn á nýtt svið.“

Í tilkynningu JET er haft eftir Dr. Bernard Bigo, sem stýrir ITER, að nýja metið sé mjög jákvæð vísbending um að rannsóknarvinnan sé á réttri leið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×