Enski boltinn

Eriksen vissi að hann myndi spila aftur aðeins tveimur dögum eftir hjartastoppið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Eriksen í leiknum gegn Finnlandi á EM þar sem hann hneig niður.
Christian Eriksen í leiknum gegn Finnlandi á EM þar sem hann hneig niður. GETTY/Lars Ronbog

Christian Eriksen vissi að hann myndi spila fótbolta aftur aðeins tveimur dögum eftir að hann fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á EM síðasta sumar.

Eriksen gerði nýverið sex mánaða samning við Brentford en hann yfirgaf Inter undir lok síðasta árs. Daninn mátti ekki spila með gangráðinn sem var þræddur í hann á Ítalíu og þurfti því að fara þaðan til að halda ferlinum áfram.

Þrátt fyrir að aðeins sjö mánuðir séu síðan Eriksen fór í hjartastopp er hann klár í slaginn. Í viðtali við heimasíðu Brentford var hann spurður hvenær hann hefði trúað því að hann myndi snúa aftur á fótboltavöllinn.

„Tveimur dögum eftir atvikið. Ég áttaði mig á hvað hafði gerst seinna um kvöldið og næstu dagar fóru í að ná áttum,“ sagði Eriksen.

„Síðan komu niðurstöður úr öllum prófunum. Ég hlustaði á læknana og eitt leiddi af öðru. Ef ég gæti gert það sem þeir lögðu fyrir mig gæti ég komið til baka hægt og rólega. Fyrst í stað var mikið um próf til að sjá hvernig hjartað myndi bregðast við áreynslu. Sem betur fer gekk það vel. Ég gat bætt við mig í hverjum mánuði og síðan byrjað að spila. Þótt þú sért með gangráð eru þér engin takmörk sett.“

Eriksen verður fyrsti leikmaðurinn til að spila með gangráð í ensku úrvalsdeildinni. Hann þekkir vel til þar en hann lék lengi með Tottenham.

Næsti leikur Brentford er gegn Englandsmeisturum Manchester City annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×