Innlent

Hættustigi vegna óveðursins aflétt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunarsveitir höfði í ýmis horn að líta í morgun.
Björgunarsveitir höfði í ýmis horn að líta í morgun. Vísir/Vilhelm

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra á landinu hefur ákveðið að fara af hættustigi Almannavarna, sem sett var á vegna óveðurs á landinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum þar sem segir að björgunarsveitir hafi sinnt 145 verkefnum í dag.

„Hættustigi var lýst yfir á miðnætti í gærkvöldi þegar ljóst var að veðurspá Veðurstofu Íslands sýndi ofsaveður um allt land og mikil hætta var á foktjóni og ófærð. Veðurspáin gekk eftir og kom fyrsta útkall til björgunarsveitanna um klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú í nótt,“ segir í tilkynningunni.

Þar sem hitastigið var ívið hærra en spár gerðu ráð fyrir snjóaði öllu minna í nótt en óttast var. Þar með voru áhrif óveðursins á færð á höfuðborgarsvæðinu ekki slík að undir morgun ætti fólk í verulegum vandræðum með að komast leiðar sinnar. Á Akureyri var veðrið einnig heldur skaplegra en reiknað var með.

Fylgst var með gangi mála í nótt og í morgun hér:

Engu að síður var veður víða afar slæmt og miklar samgöngutruflanir hafa orðið á helstu þjóðvegum landsins, sem hafa meira og minna verið lokaðir í dag. Unnið er að því að opna helstu leiðir.


Tengdar fréttir

Landsmenn undrandi í morgunsárið, spyrja spurninga og grínast

Hluti þjóðarinnar og kannski sérstaklega íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru búnir að undirbúa sig fyrir svakalegan storm sem virðist hafa valdið einhverjum vonbrigðum, ef marka má viðbrögð landsmanna á samfélagsmiðlum.

Björgunar­sveitir reikna með fleiri út­köllum seinni partinn

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að nóttin hafi gengið vel þar sem björgunarsveitir hafi byrjað að fá útköll rétt fyrir fjögur. Það hafi því virst sem að spáin væri að ganga eftir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×