Veðurofsi er víða á norðurhveli jarðar og er vart annað í fréttum vestanhafs og í Evrópu en veðrið sem gengur þar yfir. Fárviðri gengur yfir Skandinavíu, bátar slitnuðu frá bryggju í Noregi og þúsundir misstu rafmagn. Yfirvöld í Noregi og Danmörku hafa biðlað til fólks að fara ekki úr húsi.

Slæmur stormur gekk þá yfir Bretlandseyjar í gær og aftur er spáð stormi norðantil á Bretlandseyjum í kvöld. Tveir fórust í veðurofsanum þar í gær.
Þá hefur hríðarveður gengið yfir norðaustanverð Bandaríkin síðastliðinn sólarhring og sumsstaðar féll allt að 80 cm snjór.
„Þetta veður sem var í Bandaríkjunum í gær, sú lægð kemur á morgun til okkar og verður snjókoma víða um land en hún verður búin að missa mestan dampinn þannig að það verður ekkert mjög hvasst með henni. En það mun snjóa víða um land á morgun og það verður í raun sama lægð og var í Bandaríkjunum í gær,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Í myndbandinu hér að neðan má sjá éljaganginn á Selfossi í dag.
Gular veðurviðvaranir eru í gildi á vestanverðu landinu í dag og fólk varað við því að vera mikið á ferðinni milli landshluta.
Búið er að fella niður flug milli Ísafjarðar og Reykjavíkur í dag vegna veðurs og fylgst verður náið með framvindu þess og hvort fella þurfi niður fleiri innanlandsflug. Þetta sagði Ásdís Ýr Péturdsóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við fréttastofu.
„Þetta er hvassviðri og éljagangur og það er mjög hvasst sérstaklega í éljunum sjálfum. Þetta er fyrst og fremst leiðinlegt útivistaveður og svo gætu orðið samgöngutruflanir sérstaklega á fjallvegum og á öðrum vegum, úti á landi sérstaklega.“