Maðurinn sem var skotinn hét Landon Eastep og var 37 ára gamall. Hann sat á vegriði á hraðbraut í Nashville í gær þegar lögregluþjónn nálgaðist hann og bauð honum far. Lögreglan segir að Eastep hafi hrint lögregluþjóninum og tekið upp dúkahníf.
Lögregluþjónar frá minnst þremur embættum fjölmenntu á vettvangi á meðan rætt var við Eastep og reynt að fá hann til að leggja frá sér hnífinn. Lögregluþjónarnir stóðu í hálfhring andspænis honum eftir um það bil hálftíma viðræður þegar Eastep tók eitthvað úr vasa sínum og beindi að lögregluþjónum.
Washington Post hefur eftir Don Aaron, talsmanni lögreglunnar í Nashville, að lögregluþjónarnir hafi þurft að verja sig þar sem þeir vissu ekki hvort Eastep væri að beina byssu að þeim.
Síðan þá hefur lögreglan sagt að Eastep hafi ekki verið með byssu en ekki hefur verið sagt hvað hann var með í hendinni.
Fjölmiðlar ytra hafa birt myndband af atvikinu og lögreglan í Nashville hefur gert slíkt hið sama. Vert er að vara lesendur við myndböndunum en þau gætu vakið óhug. Að neðan er skjáskot úr einu myndbandanna.

Atvikið er, samkvæmt frétt Tennessean, til rannsóknar hjá Tennessee Bureau of Investigation, æðsta lögregluembætti ríkisins.
Blaðamaður Washington Post ræddi við mágkonu Eastep sem sagði fjölskylduna í áfalli. Hún sagði einnig að mágur sinn hefði verið skotinn að ástæðulausu. Hann hefði ekki átt skilið að deyja.
Hér má sjá frétt NewsChannel5 frá Nashville þar sem meðal annars er rætt við Don Aaron um atvikið.
Fréttin hefur verið uppfærð.